Hér eru nokkrir fréttamolar – og kominn tími til.  Eitt og annað er í gangi á hafnarsvæðunum þó svo að viðurkenna verði að oft hefur þetta verið líflegra.  Ekki þýðir að fást við það sem ekki verður breytt, en vinnum eins vel og kostur er úr því sem að Faxaflóahöfnum sf. snýr. 

Gamla höfnin:  Þar er verið að vinna að lóðarfrágangi við Grandagarð 8 en eins og allir þekkja hefur svæðið umhverfis húsið og á Mýrargötusvæðinu verið að taka breytingum.  M.a. eru nú komnir áhugasamir aðilar sem vilja halda stórtónleika á austan Sjóminjasafnsins, en við sjáum til hvernig þeirri hugmynd farnast.  Unnið er að viðgerðum á þaki verbúðanna á Grandagarði og nýir leigjendur eru að skila sér í hluta rýmin bæði við Geirsgötuna og Grandagarð.  Enn er gert ráð fyrir að í júlíbyrjun komi gestur frá Frakklandi á skútum í tengslum við skútukeppnina Paimpol-Reykjavík – en endanleg staðfesting liggur þó ekki fyrir ennþá.  Þá ber að nefna hugmyndir um byggingu hótels á Ægisgarðsreitnum, en það verkefni er í frumbernsku og nokkur skipulags- og fjármögnunarvegur framundan áður en það kemst á framkvæmdastig.  Loks má nefna að Minjavernd hefur áhuga á að koma fyrir húsinu Sólfelli á hafnarsvæðinu, en í því sambandi hefur verið horft til bílastæðisins vestan Geirsgötuverbúðanna.  Sólfell er um 100 ára saltfiskþurrkunarhús sem stóð lengi á Kirkjusandi.  Að uppgerð Minjaverndar lokinni gæti húið sómt sér vel í grennd við verbúðirnar á Geirsgötu.

Sundahöfn: Þar er m.a unnið að skipulagningu á landinu utan Klepps og reyndar einnig Kleppslandinu.  Þá er í bígerð að ganga betur frá Skarfagarðinum með slitlagi og vita, sams konar þeim sem hafa prýtt innsiglinguna í Gömlu höfnina.  Þá er meining að gera greiðari leið að sandinum við Köllunarklett. 

Grundartangi:  Ýmsar fyrirspurninr hafa komið til Faxaflóahafna sf. um aðstöðu á Grundartanga og vonandi að einhver áhugaverð hugmynd skili sér til framkvæmdar.  Nú er Lífland að hefja starfsemi sína á Tanganum eins og sjá má í frétt á forsíðu heimasíðunnar.  Í sumar verður haldið áfram umhverfisfrágangi – en stóra verkefnið er lenging hafnarkantsins um allt að 200 metra, sem hafinn er undibúningur að.  Ætla má að framkvæmdir hefjist á næsta ári.

Akraneshöfn: Nú líður að líkantilraunum um Akraneshöfn og í lok árs ættu niðurstöður henna rað liggja fyrir.  Í framhaldi af því ætti að vera hægt að fullvinna deiliskipulag fyrir höfnina.  Nú hafa nokkrir aðilar áhuga á að byggja aðstöðu á lóð milli hafnarhússins og fiskmarkaðarins við Faxabraut.  Um er að ræða trillukarla sem vilja skapa sér góða aðstöðu næst höfninni og kemur í ljós á næstu vikum hvort það geti ekki orðið að veruleika.

Þá skal nefnt og minnt á að fyrirhugaður er starfsmannafundur föstudaginn 7. maí auk þess sem farin verður vísinda- og fræðsluferð um hafnarsvæðin.  Þá er að nefna það verkefni í tengslum við Hátíð hafsins að fyrirhugað er að sigla kútternum Westward Ho frá Færeyjum til Íslands í lok maí.  Verkefnið er styrkt af Vest-Norden sjóðnum með því skilyrði að þrír íslendingar séu í áhöfn!  Nokkrir áhugasamir aðilar úr borgarkerfinu höfðu munstrað sig en duttu svo úr skaftinu þagar á reyndi.  Því varð úr að þrír vaskir Faxamenn sigla heim, undirritaður, Stefán Hallur og Gísli Halls., en út sigla þeir Pétur Kristjánsson, Oddur Jósep og Jón Sigurðsson.  Lagt verður af stað frá Færeyjum laugardaginn 29. maí – þegar gengið verður hér á landi til sveitarstjórnarkosninga – en áætlað að skútan skili sér í Gömlu höfnina laugardaginn 5. júní.  Út verður siglt mánudaginn 7. júní – og reiknað með komu tl Færeyja um helgina þar á eftir.  Westward Ho er systurskip Kútters Sigurfara, en kútterinn var byggður í  Grimsby árið 1884.  Færeyingar hafa gert kútterinn upp með miklum myndarskap.  Þetta verður sem sagt hinn fróðlegasta reisa.

Ekki fleira í bili.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri.

 

FaxaportsFaxaports linkedin