Jónas G. Ragnarsson
Við eigum samferðafólk sem í andstreymi og ágjöf miðlar til okkar hinna hugrekki og blæs okkur baráttu í brjóst. Með framgöngu sinni og viðmóti lætur það ekki bugast af þungum byrðum. Þannig má lýsa Jónasi G. Ragnarssyni, hafnsögumanni Faxaflóahafna sf. sem við samstarfsfólk og vinir kveðjum eftir langa og erfiða baráttu hans við veikindi. Jónas hóf störf hjá Reykjavíkurhöfn árið 1996 og síðar Faxaflóahöfnum sf. sem hafnsögumaður og gegndi því starfi af einstökum sóma og trúmennsku allt þar til yfir lauk. Langan feril átti hann áður í siglingum og eins og gerist með marga þá sem fara til sjós þá voru lítil skil milli vinnunnar og áhugans á þeim verkefnum sem tengdust siglingum, skipum og útgerð. Þannig manni er gott að starfa með og þess nutum við vinnufélagar hans og vinir. Ef það voru ekki hafnarmálin sem voru efst á baugi hjá Jónasi þá var stutt í umræðuna um trilluútgerðina eða laxveiði, en þegar starfsþrekið minnkaði tóku við áhugamál við útskurð og smíðar því Jónas var handlaginn maður og vandvirkur.
Fyrir allnokkrum árum greindist Jónas með þann sjúkdóm sem að lokum lagði hann að velli. En á þeim tíma hafði Jónas marg oft betur í harðri glímu og með jákvæðu hugarfari og þrautseigju harðneitaði hann að játa sig sigraðan. Starf hafnsögumanna er ekki heiglum hent þar sem þeir m.a. fyrir opnu hafi fara um borð í skip við misjafnar aðstæður og oft vondar. Það starf vafðist ekki fyrir Jónasi, en hann átti erfitt með að gera hlé á skyldum sínum sem lóðs þegar veikindin tóku sinn toll. Aldrei kom þó annað til greina en koma sterkur til baka og vinna sem fyrr bug á því meini sem hélt honum í landi. Síðasta ár hallaði hins vegar undan fæti, en þrátt fyrir það fór hann til veiða síðastliðið sumar með vinnufélögum sínum og renndi fyrir lax þó svo að hann þyrfti að sitja á árbakkanum. Frásögn hans af ferðinni bar þó með sér einlæga gleði og brennandi áhuga og ekki stóð annað til en að halda á vit nýrra veiðiævintýra á komandi sumri. Undir lok síðasta árs varð vörnin erfiðari og tímans gangur þannig stilltur að nú kveðjum við góðan mann og vinnufélaga.
Við leiðarlok og hinstu kveðju er efst í huga það jákvæða viðhorf sem Jónas bar til allra hluta og sú lífsgleði og baráttuþrek sem snart samferðafólk hans. Með söknuði kveðjum við þennan heiðursmann og vottum Marsibil og fjölskyldunni allri dýpstu samúð okkar með þeim orðum að lífsviðhorf og mannleg reisn Jónasar megi vísa okkur veginn. Lifi minningin um Jónas G. Ragnarsson.
F.h. starfsmanna
Faxaflóahafna sf.
Gísli Gíslason, hafnarstjóri.