Þann 5. desember kl. 17:00 tendrum við jólaljósin á jólatrénu sem kemur nú í 44. skiptið frá Hamborg. Starfsmenn eru hvattir til að mæta með fjölskylduna og taka þátt í gleðinni og fá sér heitt súkkulaði á eftir með bakkelsi. Við tréð mun barnakór syngja jólalög og Þýski sendiherrann ávarpar viðstadda.
Tréð er gjöf til Reykjavíkurhafnar sem þakklætisvottur til íslenskra sjómanna sem gáfu fátæku og svöngu fólki mat í hafnarborgum Þýskalands á árunum eftir stríðið. Á eftirstríðsárunum sigldu íslensku togararnir með ísfisk til Þýskalands og að sögn íslensku sjómannanna var oft biðröð við eldhúsið um borð þar sem kokkurinn gaf fólkinu súpu eða fiskstykki.
Á laugardaginn 21. nóvember var þess minnst að 60 ár eru liðin frá því að 300 þýskir landbúnaðarverkemenn komu til Íslands árið 1949. Á ráðstefnu sem haldin var á Hótel Sögu var sérstaklega til þess tekið hversu vel íslenskir togarasjómenn reyndust þessu fólki en margt af því kom til Íslands með togurum, sem voru að selja fisk í Cuxhaven eða Bremerhaven.