bj 

Elli smiður benti réttilega á að ekki væri upplýsingaflæði um innri vefinn til fyrirmyndar – nú skal reynt að bæta aðeins úr og lofa betrumbót. Eitt og annað er framundan og ágætt að fara aðeins yfir stöðu mála.

Í fyrsta lagi er rétt að nefna að almennt hefur rekstur Faxaflóahafna gengið samkvæmt áætlun.  Tekjur og gjöld verða reyndar hvoru tveggja eilítið hærri en ráð var fyrir gert í fjárhagsáætlun – en á því hefur veirð unnin bót í endurskoðaðri fjárhagsáætlun sem má sjá HÉR og síðan má sjá gagnmerka greinargerð hafnarstjóra með þeim breytingum HÉR

Almennt gekk vel að ganga frá þeim flotbryggjumálum sem voru á fjárhagsáætlun og nú vinna Hermann Bridde og félagar að því að klára uppsetningu hliða, rafmagns, vatns og fleira.  Ekki er annað að heyra en að allir séu ánægðir með framkvæmdina. 

Á Grundartanga eru nú ákveðin verkskil við lengingu Tangabakka, en farið verður í fyllingar við undirlag bakkans og síðan skoðað hvaða hraði verður á verkefninu.  Þá verður farið í gatnagerð og frágang á Grundartanga á þeim mánuðum sem eftir lifa árs.

Eins og sjá má á forsíðu heimasíðunnar þá veitti Björgunarsveitin Ársæll Faxaflóahöfnum og fleiri fyrirtækjum viðurkenningu fyrir stuðning við tækjakaup – og er það ánægjulegt og stuðningur við björgunarsveitirnar þarfur – eins og kostur er.

Í nýgerðum kjarasamningum eru nokkur ákvæði sem vinna þarf að á næstunni.  Í fyrsta lagi er bókun um gerð starfslýsinga fyrir hvern og einn starfsmann og er sú vinna hafinn. Þegar kominn er rammi að starfslýsingu fyrir hvern og einn starfsmann verður rætt við viðkomandi og farið yfir efni.  Önnur bókun lítur að því að skilgreina reglur um endurmenntun starfsmanna.  Nú er verið að afla efnis og fyrirmynda í því efni og vonast til að tillaga í því efni liggi fyrir á árinu.  Loks skal nefnt að í kjarasamningunum tveimur er gert ráð fyrir endurskoðun á uppbyggingu á launatöflu.  Það ákvæði er með sama hætti í allnokkrum samningum og verður tekið mið af því – en stefnt að því að sú vinna fari af stað tímanlega.  Af hálfu Faxalfóahafna sf. verða fulltrúar í þá vinnu tilnefndir fljótlega.

Framundan er vinna við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2012.  Því miður er ekki að vænta stórra breytinga á tekjum og þess vegna þarf að horfa í hvert horn þannig að tekjuafgangur dugi til nauðsynlegra framkvæmda.  Þó svo að verið sé að byggja nokkur hús á hafnarsvæðinu m.a. í Sundahöfn, Grundartanga og á Akranesi þá er dræm lóðaeftirspurn og ekki útlit fyrir stóra breytingu þar á næstunni.  En stór verkefni blasa við, m.a. lenging bakka á Grundartanga, lengin Skarfabakka, lagfæring á Kleppsbakka, endurnýjun á efri hæð Bakkaskemmu – og án vafa ýmislegt fleira.  gera má ráð fyrir að tillaga að fjárhagsáætlun verði lögð fyrir hafnarstjórn 14. október.

Nú er á lokametrunum að samþykkja umhverfisstefnu fyrir Faxaflóahafnir sf. og með þeirri stefnu fylgir mikið skjal sem tekið hefur veirð saman um umhverfismál Fxaflóahafna.  Skjalinu ásamt stefnu fyrirtækisins verður komið á vefinn fljótlega – en í skýrslu sem gerð hefur veirð kemur ýmislegt fróðlegt fram um stöðu mála og þayu verkefni sem framundan er.  Umhverfismálin taka sífellt meira til sín í tíma og peninum enda mikilvægt að fyrirtæki í hafnarstarfsemi og lóðagerð sé með allt sitt á þurru í þeim efnum.

Hér verður látið staðar numið að sinni – en frekari fróðleik lofað innan tíðar.

Kveðja Gísli G

FaxaportsFaxaports linkedin