Smá greinarstúf sendi undirritaður í Skeesuhornið:
„Á nýafstöðnum þjóðfundi í Borgarnesi þar sem fjallað var um sóknaráætlun fyrir svonefnt Vestursvæði kom ekki á óvart að þjófundargestum væri iðnaða- og hafnarsvæðið á Grundartanga hugleikið. Án nokkurs vafa er svæðið mikilvægt fyrir sveitarfélögin norðan og sunnan Hvalfjarðar.
Í stuttu málið má rekja upphafið til byggingar Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga laust fyrir 1980 og síðan byggingu Norðuráls á árunum 1996-1998, en ætla má að umsvif þessara fyrirtækja skapi lang leiðina í 1000 störf á svæðinu auk afleiddra starfa. Þrír veglegir hafnaráfangar hafa verið byggðir með tilheyrandi baklandi, en nú eru heildar viðlegupláss á Grundartanga um 570 metrar. Á síðustu mánuðum hafa fyrirtæki sýnt því áhuga að hasla sér völl á Grundartanga, en vélsmiðjan Héðinn hóf þar starfsemi á síðasta ári og Lífland tekur þar til starfa með vorinu.
Kostir svæðisins á Grundartanga felast m.a. í eftirfarandi:
· Góðu byggingarlandi.
· Öflugum tengivirkjum til afhendingar á orku.
· Góðri hafnaraðstöðu.
· Ákjósanlegri staðsetningu.
· Nálægð við atvinnusvæði fagfólks á öllum sviðum.
Að undanförnu hefur svæðið verið skipulagt fyrir hvers konar iðnaðarstarfsemi og fyrstu lóðirnar samkvæmt því skipulagi tilbúnar. Auðvelt er að prjóna við svæðið og mæta þeim óskum sem einstök fyrirtæki hafa. Tækifærin eru mörg og á síðustu mánuðum hafa ýmsir aðilar, stórir og smáir, innlendir og erlendir, komið að máli við Faxaflóahafnir sf. og skoðað aðstæður. Helst kreppir að varðandi framboð á orku og halda má því fram að sú umræða sé á fullkomnum villigötum nú þegar þjóðarbúinu er brýnast að vinna gegn atvinnuleysi og fyrir auknum þjóðartekjum.
Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að orkuna má nota til fjölbreyttrar framleiðslu, sem án vafa skilar samfélaginu arði, margs konar störfum og bísna fjölþættum áhrifum víða í samfélaginu. Mikilvægt er einnig að átta sig á því hvers konar starfsemi skilar flestum störfum og mestum umsvifum miðað við þau megwött sem til hennar þarf. Rætt er um græna stóriðju í gagnaverum og eflaust er slík starfsemi æskileg að vissu marki – svo framarlega sem hún stendur undir þeim fjölda starfa sem við eigum að gera kröfu um og svo framarlega sem Ísland eigi ekki að verða eitt alheims netþjónabú. Því miður virðist ráðandi ákveðin tregða og jafnvel fordómar við að horfa til orkuvinnslu og sölu orkunnar til iðnaðarframleiðslu – þrátt fyrir að sjaldan hafi þörfin verið meiri. Að sjálfsögðu þarf að taka tillit til virkjunarkosta, umhverfisins, tegundar framleiðslu og sv. frv. og til þess sett flókið regluverk, en það er óráðlegt að láta þessi tækifæri fara forgörðum.
Grundartangi er ákjósanlegur staður fyrir fjölbreytta framleiðslu- og þjónustustarfsemi. Á næstu árum verður þróun svæðisins haldið áfram, en með aukinni áherslu á ásynd svæðisins og umhverfi. M.a. eru uppi hugmyndir um að endurheimta Katanestjörnina, sinna frekari trjárækt, sem Guðmundur Sigvaldason, jarðeðlisfræðingur kom svo myndarlega á legg með merkilegu starfi sínu og ganga frá umhverfi lóða svo að sómi verði að. Atvinnusvæði þurfa ekki að vera í þriðja flokki umhverfismála þó
svo að þeim fylgi jarðrask, mannvirki og útblástur því markviss skipulagning, skynsamleg nýting og góð umgengni geta tryggt eðlileg umhverfisgæði.
Það er langtímaverkefni að þróa gott atvinnusvæði á Grundartanga, en okkar miðar áleiðis – og það er ánægjulegt að eftir er tekið og væntingar bundnar við árangur, enda skiptir það samfélagið máli.
Gísli Gíslason,
hafnarstjóri Faxaflóahafna sf.“