Mánudaginn 16. febrúar kl. 14:00 verður haldinn fundur með starfsmönnum hafnarþjónustunnar um starfsskipulag, starfslýsingar og ýmis mál sem tengjast daglegri umsýslu þessa hluta starfsemi Faxaflóahafna sf.  Ætlunin er að kynna nokkrar áherslur og áherslubreytingar í starfseminni og ræða við hafnarþjónustumenn um ýmis atriði.  Fundurinn verður í fundarsal á neðri hæð hafnarskrifstofunnar og þess vænst að starfsmenn hafnarþjónustunnar mæti sem flestir. 

M.a. verður kynnt á fundinum samantekt á þeim áherslum sem leggja skal áherslu á í rekstrinum, kynnt skipurit starfseminnar og starfslýsingar sem að baki því skipulagi munu gilda.  Þá verður farið yfir breyttar áherslur í rekstrinum á Grundartanga, en þar hefur gæsla vegna hafnarverndar verið boðin út og ætlunin er að Faxaflóahafnir sf. verði þar með svæðisstjóra í framtíðinni.  Verið er að undirbúa aðstöðu fyrir svæðisvörð og ætti hún að verða tilbúin á vordögum. 

Hér er meira um áherslubreytingar að ræða en gagngerar skipulagsbreytingar, en ætíð er nauðsynlegt að skoða þá þætti sem þurfa skoðunar við og skerpa á hlutverkum þannig að öllum sé ljóst hvert skipulagið er og til hvers er ætlast.  Faxaflóahafnir sf. halda nú úti þremur áhöfnum lóðs- og dráttarbáta, þ.e. Magna, Jötuns og Leynis, en að auki kemur Þjótur í góðar þarfir þegar á þarf að halda.  Aukinn skipafjöldi á Grundartanga og í olíuhafnirnar inn í Hvalfirði kalla á aukna samvinnu starfsmanna í Reykjavík og á Akranesi jafnframt því sem mikilvægt er að starfsmenn á Akranesi nýtist í Reykjavík þegar á þarf að halda.  Þá er ljóst að flöldi skemmtiferðaskipa heldur áfram að aukast og þau skip sem koma fara stækkandi.  Því verður að skipuleggja vel starfsemina yfir sumartímann þegar sumarleyfi hafa áhrif á fjölda þeirra starfsmanna sem til reiðu eru hverju sinni.  Loks má nefna að áhugi Faxaflóahafna sf. beinist að því að auka hlutdeild fyrirtækisins í verkefnum t.d. í Helguvík, en ákveðin þjónusta hefur verið veitt í þeim efnum.  Með tilkomu álvers í Helguvík má búast við að tækifærum þar muni fjölga.

Mikilvægt er hverju sinni að umfang starfseminnar sé löguð að þeim verkefnum sem fyrirsjáanleg eru, en segja má að starfsmenn hafnarþjónustunnar búi við nokkrar sveiflur þar sem toppar og lægðir skapast af misjöfnum komutíma skipa.  Mikilvægt er því einnig að þær stundir sem skapast á milli „stríða“ séu nýttar vel.

Hér má sjá samantektþar sem farið er yfir þjónustu hafnarþjónustunnar, skipurit sem ætlunin er að kynna og þær starfslýsingar sem eiga að gilda í framhaldi.  Eflaust má stilla hlutum upp með ýmsum hætti og ekkert er óbreytanlegt, en þess er vænst að gagnlegar ábendingar skili sér á fundinum á mánudag.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri.

FaxaportsFaxaports linkedin