Í morgun samþykkti stjórn Faxaflóahafna sf. fjárhagsáætlun fyrir árið 2010. Áættlunin ber þess merki að tekjur hafa dregist verulega saman, sérstaklega vörugjöld, lóðaleiga og sala byggingarréttar. Eftir sem áður er staða fyrirtækisins traust þó svo að framkvæmdagetan sé mun minni en undanfarin ár.
Í þeirri áætlun sem samþykkt var er gert ráð fyrir að leitað verði hagræðingar í rekstri á sem flestum sviðum og er það í takt við það sem prédikað hefur verið á liðnum mánuðum. M.a. er gert ráð fyrir í áætluninni að launakostnaður lækki og ákveðnar forsendur settar í útgjaldahlið áætlunarinnar varðandi það. Það verður sem sagt verkefni næstu vikna að skoða hvernig þeim markmiðum verði náð. Aðgerðir í þeim efnum eru viðkvæmar og starfsfólki erfiðar og hefur í umræðu um þessi mál verið bent á þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í hjá Reykjavíkurborg og Orkuveitu Reykjavíkur. Á móti hefur verið bent á ýmis atriði svo sem stöðu Faxaflóahafna sf., samsetningu launa, að í fyrirtækinu starfi aðeins 65 starfsmenn o.fl. Eftir stendur sú niðurstaða stjórnar að ekki verður undan því vikist að ná fram hagræðingu í rekstrinum þ.m.t. launakostnaði. Á fundum með flestum starfsmönnum hafnarþjónustunnar hefur verið rætt um breytingu á vinnufyrirkomulagi til þess að mæta betur þeim álagspunktum sem eru við móttöku skipa. Eðlilegt er að skoða slikt óháð sérstökum hagræðingaraðgerðum. Einnig er eðlilegt að skoða samsetningu og mismunandi ákvæði um fastar yfirvinnugreiðslur þar sem það á við þannig að slíkar greiðslur séu skýrt skilgreindar og að samræmi sé í þeim greiðslum innan fyrirtækisins. Í öllu þessu er þó kýr skýrt að ekki verður hreyft við föstum launum þeirra sem síst skyldi, heldur skoðað frá toppi hvernig ná megi þeirri hagræðingu sem stjórn félagsins hefur ákveðið. Ljóst er að óvissa varðandi kjaramál veldur starfsmönnum óþægindum og því er mikilvægt að sem fyrst liggi hvernig mæta eigi kröfum um hagræðingu.
Í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er það nýmæli að Faxaflóahafnir sf. greiða nú til eigenda sinna arð alls 173.0 mkr. Það er í sjálfu sér eðlileg krafa að eigendur njóti arðs af eign sinni, en hvatt hefur verið til þess að slíkar greiðslur vegi ekki um of að fjárhagslegum styrkleika fyrirtækisins og framkvæmdagetu. Sú aðvörun á ekki síst við þegar breytingar á gjaldskrá eru talsvert undir þeirri verðlagsþróun sem verið hefur og undir þeirri verðlagsþróun sem er fyrirsjáanleg. Að auki má benda á að áfram verður óvissa um þróun vörugjalda því þrátt fyrir að vonast sé að umfang vöruflutninga ´hafi náð ákveðnu lágmarki þá er ekkert öruggt í þeim efnum. Til framkvæmda á árinu 2010 er ráðgert að verja liðlega 270 mkr. sem er mun minna en undanfarin ár og um 145.0 mkr. til sérstakra viðhaldsverkefna. Í greinargerð með fjárhagsáætluninni (sem má sjá hér) er nánar farið yfir einstök atriði.
Þá má hér sjá tekju- og rekstraráætlun,sundurliðun tekna og sundurliðun rekstrar.