Nú er undirritaður ásamt Ágústi markaðsstjóra staddur í Bremen á fiskimessu þar sem um 400 aðilar sýna vörur sýnar og þjónustu auk þess sem haldnir eru fyrirlestrar um ýmis mál varðandi fisk, fiskveiðar og fleira 

Það er ljóst af öllu að íslenskur fiskur er eftirsótt vara og af ýmsum toga þær fyrirspurnir sem berast.  Faxaflóahafnir sf. eru með kynningarefni og bás með Hafnarfjarðarhöfn og Útflutningsráði, en á næstu grösum við eru starfsmenn HB Granda hf. með kynningu á sínu fyrirtæki og starfsemi.  Auk fyrirspurna um fisk, fiskveiðar íslendinga, hvalveiðar (!), umfang fiskvinnslu innan Faxaflóahafn sf. og um aðstöðuna innan Faxaflóahafna sf., þá er augljóslega mikill áhugi á sjóstangveiði á Vestfjörðum og ljúft og skylt að sinna þeirri upplýsingagjöf enda stutt í dýrfirðinginn í markaðsstjóranum.

Fjöldi íslendinga er á svæðinu frá ýmsum fyrirtækjum en m.a. eru væntanlegir í dag (sunnudag) Eggert Guðmundsson forstjóri HB Granda hf., Hjörtur Gíslason, forstjóri Ögurvíkur og formaður Útvegsmannafélags Reykjavíkur og Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra.

Við opnun sýningarinnar heimsótti Reinhard Meiners, heiðurskonsúll Íslands í Þýskalandi ásamt konu sinni, bás Faxaflóahafna sf., en hann þekkir vel til starfsemi hafnarinnar í Reykjavík og var m.a. góður vinur Hannesar heitins Valdimarssonar og heimsótti hann gjarnan í Hafnarhúsið þegar hann átti leið um Ísland.

Það verður víst að segjast eins og er að veðrið hérna í Bremen er aðeins betra en á Klakanum – hér er sem sagt svo gott sem logn og 10 – 12 stiga hiti – og jafnast á við hitabylgju ef tekið er mið af veðráttu á Íslandi síðustu vikur og mánuði.  Að eðlilegum ástæðum er að sjálfsögðu gripið til viðeigandi ráðstafana til að mæta hitanum og verjast ofþornun.

Nánar síðar.

Gísli Gíslason.

FaxaportsFaxaports linkedin