einkennisbuningur_skipstjora 

Eftirfarandi frétt mun birtast í Skessuhorni næstu daga – til að fá smá forskot þá er hún látin vaða hér ykkur til fróðleiks: 

„Á föstudaginn síðasta var efnt til smáathafnar í Garðakaffi á safnasvæðinu á Görðum á Akranesi. Þar var mættur Þorvaldur Guðmundsson skipstjóri á Akraborginni síðustu 24 árin sem Boggan sigldi yfir Flóann, Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna og Jón Allansson safnvörður minjasafnsins að Görðum. Tilefnið var að afhenda formlega byggðasafninu til varðveislu einkennisbúninginn sem Þorvaldur klæddist þennan tíma og hafði verið í notkun á Akraborginni fimm árin þar á undan. Þessum búningi klæddist Þorvaldur seinast fyrir þrettán árum, þegar Akraborgin hætti að sigla milli Reykjavíkur og Akraness, og ný samgönguleið opnaðist, Hvalfjarðargöngin.

 

Skemmtilegur tími

“Þegar ég var að byrja í sjómennsku, réði ég mig einn mánuð að vorlagi í afleysingu á Akraborgina. Sá tími fannst mér afskaplega leiðinlegur og þá hvarflaði ekki að mér að ég ætti eftir að eyða lengstum tíma starfsævinnar á Boggunni. En þetta reyndist síður en svo leiðinlegur tími, þessi 24 ár sem ég var um borð í Akraborg, þar voru engir tveir dagar eins. Það voru allskyns uppákomur, misjöfn veður og margt fólk. Það má segja að maður hafi kynnst hálfum heiminum á þessum árum á Akraborginni. Við vorum mörg árin að flytja álíka marga farþega og jafngilti íbúatölu landsins,” sagði Þorvaldur um Akraborgarárin sín í sjómannablaði Skessuhorns 1908, en Þorvaldur á langan og farsælan sjómannsferil að baki.

 

Var svona slæmt í sjóinn

Þorvaldur sagði þessa skemmtilega sögu frá árum sínum á Akraborginni. “Á tímabili var bílaverkstæðismaður hér á Akranesi sem var mikið í því að gera upp gamla og beyglaða bíla. Hann var búinn að kaupa nokkra slíka í borginni og flytja þá niður á hafnarbakka. Þegar við vorum lagstir að bryggju í það skiptið renndi þarna að gamall maður sem varð starsýnt á bílana á bakkanum. Hann spurði mig hvort að hefði verið svona slæmt í sjóinn. Hann hélt þá að þessir bílar væru nýkomnir frá borði.“

FaxaportsFaxaports linkedin