Íslendingar stóðu sig vel í upplýsingu um fiskveiðar og fiskvinnslu hér í Bremen í dag  á vegum Glitnis, þýsk íslenska verslunarfélagsins o.fl.  Á ráðstefnu sem haldin var fóru helstu jöfrar yfir markaðssókn íslendinga, veiðar og vinnslu og fórst það vel úr hendi.

Í upphafi gerði Ólafur Davíðsson, sendiherra Íslands í Þýskalandi, góða grein fyrir útflutningi íslendinga og áhrifum fisks í efnahagskerfinu, en í þeim efnum hefur ýmsilegt breyst á síðustu árum – en eftir sem áður er fiskur miklivægur hagkerfinu á Íslandi.  Í framhaldi flutti Einar Kr. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra prýðilega ræðu um fiskveiðar og fiskvinnslu og var þar m.a. nefnt að sífellt er lögð meiri áhersla á gæði, „vistvænar og sjálfbærar veiðar“, gæðavottun o.fl.  Einar nefndi ýmis atriði varðandi samdrátt í veiðum á þorski á Íslandi og áhrif þess á byggðirnar og lýsti skoðunum sínum á nauðsyn þessara aðgerða.

        

Í framhaldi flutti Eggert B. Guðmundsson, forstjóri Granda hf. ágætt erindi um markaðssetningu á íslenskum fiski.  Hjörtur Gíslason, hjá Ögurvík og formaður Útvegsmannafélags Reykjavíkur var staddur á fundinum og nefndi við mig að gott verð væri nú fyrir ferskan fisk í Þýskalandi, en frystur fiskur væri verðhærri á öðrum mörkuðum svo sem ífyrrum Júgóslavíuríkjum, Spáni og Asíu.  Auk framangreindra fyrirlestra voru einir fjórir aðrir aðilar sem fluttu ágætt mál, Kristján Hjaltason frá Glitni, Ólafur Sigmundsson frá Mecklenburger o.fl. Allt saman fróðlegt.

Eftir hádegið heimsótti Einar Guðfinnsson bás Faxaflóahafna sf. (og Hafnarfjarðar) – en sýningunni lauk í dag og þá var haldið með lítilli rellu frá Bremen til Kaupmannahafnar þar sem við Ágúst munum hitta Færeyinga og Grænlendinga og ræða skemmtiferðaskipamál en NORA heitir apparat sem heldur fund um þau mál hér í fyrrum höfðuborg Íslands.

Allt er þetta hið fróðlegasta og ánægjulegt að sjá hversu vel og faglega staðið er að ýmsum hlutum varðandi sölu á fiski.  Allt frá veiðum, vinnslu og til fjármögnunar , miðlunar á fiski o.fl.

Gísli Gíslason.

FaxaportsFaxaports linkedin