Fjórir veiðigarpar fóru til veiða í Úlfljótsvatni seinni partinn í gær – miðvikudaginn 12. ágúst og renndu fyrir silung.  Þetta voru þeir Vignir Albertsson, Jón forseti Sigurðsson, Gísli Gíslason og Gils Friðriksson.  Rennt var fyrir bleikju og urriða við Steingrímsstöðina þar sem alla jafan er mikill fiskur og stór. 

Veður var ákjósanlegt – logn og sól þannig að ekki þvældist veðráttan fyrir veiðköppunum, sem flengdu svæðið með flugu, spún og ormum auk þess sem markíll sást í tösku einhverra.  Frá því er skemmst að segja að veiðin lét á sér standa – en þó tókst Gils og Gísla að særa upp nokkra í smærri kantinum – sem reyndar fóru allir í veiðisekkinn hjá Gils, sem hugsaði sér gott til glóðarinnar, enda heilsteikt örbleikja hinn besti matur.

Ekki vantaði stórfiskinn, því bolta fiskar svömluðu framhjá veiðimönnunum aftur …. og aftur án þess að sýna veiðitólum þeirra nokkurn áhuga.  Forsetinn beitti spúni af kappi en hafði ekki erindi sem erfiði að þessu sinni og Vignir setti í nokkra titti án þess þó að leggja Gils til afla í sekkinn.  Að sjálfsögðu var aflinn ekki aðalatriðið heldur félagsskapurinn og útiveran þannig að dagsparturinn var öllum ánægjulegur.

FaxaportsFaxaports linkedin