Í síðustu viku var haldinn fundur hafnarstjóra 9 hafna á Norðurlöndum, en fundurinn er árviss viðburður.  Nú var fundurinn haldinn í Osló – en á næsta ári koma hafnarstjórarnir til Íslands en Faxaflóahafnir sf. munu annast framkvæmd fundarins.  

Á þessum fundum er skoðað hvað er að gerast í þeirri höfn sem heimsótt er hverju sinni og farið yfir helstu verkefni.  Allt er þetta hið fróðlegasta.  Hér á eftir fer smá úrdráttur um það helsta sem verið er að gera í eftirfarandi höfnum:

Kaupmannahöfn/Malmö:  Kaupmannahafnarmegin er verið að vinna að landþróun og íbúðabyggð á gömlum hafnasvæðum en einnig er verið að færa til gámahöfn og olíutanka.  Í Malmö er verið að byggja upp öfluga gámahöfn.

Esbjerg:  Höfnin er aðal þjónustuhöfnin fyrir olíuiðnað og vindmilluframleiðslu.  Verið er að stækka höfnina og miklar hugmyndir um aukningu í flutningum.

Helsingborg:  Þar á sér stað þróun lands undir íbúðabyggð og undirbúningur er í gangi með legningu vega framhjá höfninni til að koma henni í betra vegsamband.

Osló:  Verið er að leggja vegstokk í höfnina til að færa umferð úr miðbænum.  Akersbrygge er svæði þar sem verslun og þjónusta hefur verið byggð við það sem áður var aðal athafnavæði hafnarinnar.  Verið er að færa gámahöfnina og farþegaskipaaðstaða er á þremur stöðum og á þeim öllum verið að byggja upp mannvirki fyrir betri þjónustu. 

Helsinki: Í lok nóvember verður gríðarlegt svæði opnað þar sem lestarsamgöngur verða við stórt gámasvæði.  Ný viðlegumannvirki og gámavellir hafa verið byggðir – en það svæði sem verður aflagt fer undir íbúðahús.

Stokkhólmur:  Verið að þróa áfram íbúðabyggð þar sem áður var hafnarstarfsemi en hafnarstarfsemin hefur veirð færð frá miðborginni.

Árósar:  Búið er að byggja nýja gámavelli til að losa svæði sem fara undir íbúðabyggingar.  Umræða er komin upp um staðsetningu olíubirgðastöðvar, sem er nánast inn í miðbænum.

Gautaborg:  Ný gámasvæði hafa verið gerð til að losa önnur svæði sem farið hafa undir íbúðabyggð.

Það má því segja að ýmislegt eigi þessar hafnir allar sameiginlegt og að þróunin sé með svipuðum hætti hvort heldur er á Íslandi eða í Skandinavíu.

Kveðja Gísli G

FaxaportsFaxaports linkedin