Nýlega voru fulltrúar Faxaflóahafna sf. í heimsókn í Færeyjum m.a. til að endurgjalda góðar heimsóknir þaðan. Tilefnið var m.a. þátttaka Faxaflóahafna sf. í Fiskimessunni í Þórshöfn en þar voru Faxaflóahafnir með bás að vanda. Heimsóknin var í alla staði vel heppnuð og m.a. farið í skoðunarferðir til hafnanna í Runavík, Klaksvik og Fuglafirði auk þess sem fræðst var um höfnina í Þórshöfn.
Sem kunnugr er þá eru mörg jarðgöng í Færeyjum sem notuð eru til umferðar – en í Fuglafirði eru talsvert löng göng við höfnina sem notuð eru sem frystihótel. Þannig fengu þeir í Fuglafirði efni til að byggja hluta hafnarinnar og nýttu plássið með því að nota göngin til kæli- og frystistarfsemi. Ef rafmagnið fer af þá er fjallið orðið svo hélað að kuldinn frá berginu dugar þeim í einn til tvo sólarhringa. Þetta verður að segjast eins og er – hrein snilld hjá frændum okkar.
Í Klaksvik mátti sjá og skoða nýtt uppsjávarveiðskip þeirra Klaksvíkinga, Norðborg – en það er afar glæsilegt skip sem kostaði um 7 – 8 milljarða ísl. króna – og af svipaðri stærð og Engey sem sást hér í Faxaflóahöfnum á sínum tíma. Um borð má frysta um 250 tonna afla á sólarhring.
Í Rúnavík er helsta starfsemin í kringum fisk og þjónustu við olíuleitarlið og létu þeir vel af sér.
Höfnin í Þórshöfn er merkileg og falleg. Þar er að vanda urmull smábáta auk þess sem ferjan til Suðureyjar kemur til Þórshafnar daglega, svo og er þar viðkoma Norrænu og í ár liðlega 40 skemmtiferðaskipa. Þar eru Eimskip og Samskip með aðstöðu en Samksip er reyndar með sína aðstöðu í höfninni í Kollafirði sem þeir í Þórshöfn hafa verið að þróa.
Í Þórshöfn er m.a. útimarkaður sem sjá má á mynd hér við hliðina og án vafa hugmynd að við skoðum uppsetningu á svona aðstöðu sem er einföld og snyrtileg. Þarna selja þeir Færeyingar fugl. fisk, egg, kjöt af grind og fleira gott þegar hentar.
Að vanda tóku Færeyingar höfðinglega á móti frændfólki sínu frá Íslandi og buðu upp á þétta og fróðlega dagskrá.