Þó svo að það falli ekki endilega undir starfsemi Faxaflóahafna sf. þá þykir rét að koma hér á framfæir nokkrum gullkornum af ferðum fjölveiði- og farþegarskipsins Jóns forseta, sem m.a. er í eigu Jóns forseta Sigurðssonar og Gísla Gíslasonar.
Tveir úr áhöfn Jóns forseta fóru í fjölskylduferð í Hvammsvík þann 19. júlí s.l. þar sem Snarfaramenn voru með árlega samkomu sína. Í Hvammsvík bættist þriðji áhafnarmeðlimurinn stuttlega í hópinn. Það voru þeir Jón forseti sjálfur og Kaptein Gíslason sem sigldu en Karl Þórðarson var landmaður í Hvammsvík. Júlíus Guðnason, skipstjóri á Magna og sonur hans liðlega fermdur fengu að sigla með í Hvammsvíkina, en siglingin gekk í alla staði vel undir öruggri skipsstjórn hins alsgóða og athugula G. Gíslasonar, sem flokkast undir að vera skrifstofublók með pungapróf.
Siglingin í Hvammsvík tók 2 klst. og 30 mín. – en heimferðin sem var farin um kl. 23:30 tók sléttar tvær klukkustundir. Í Hvammsvík lagðist forsetinn utan á nokkurra tuga milljóna snekkjur – en stóð fyrir sínu og litinn öfundaraugum – að sjálfsögðu. Skýringin á því mun vera að hin dýrari fleyin eru öll eins en forsetinn skar sig verulega úr og vakti þar af leiðandi mesta athygli.
Meðfylgjandi er mynd af útliti Jóns forseta og samanburði!! Í grillveislu sem haldin var í hlöðunni í Hvammsvík var m.a. boðið upp á óperusöng – en að því loknu stigu Gilbert Ó Sullivan og Jón forseti á stokk og trylltu liðið meðal annars með hinum ógleymanlega söng: „Málaðu fjósið“. Þá var slegið á strengi undir fjöldasöng sem lagðist afar vel í alla viðstadda. Á brennu síðar um kvöldið var einnig sungið við gríðarlega hrifingu nærstaddra. Í grillinu voru þeir Gilbert og Jón klappaðir og stappaðir upp – en það mun víst aldrei hafa gerst áður að sögn forsetans – hvort heldur er í velsu Snarfara eða þegar Jón forseti hefur átt í hlut. Að brennu lokinn kallaði Kaptein Gíslason áhöfnina um borð og sigldi á braut – og var þá grátið á bryggjunni – og hefur slíkur harmagrátur aldrei heyrst í Hvalfirðinum.
Föstudaginn 25. júlí fór áhöfn forsetans til veiða í yndælis veðri á Faxaflóa. Fremur var fiskurinn smár – en nóg af honum. Skipstjóri forsetans tók þá skyndiákvörðun þegar nánast var komið á stórfiskaslóðir við Baulurif að venda skútunni til Reykjavíkur og bjóða áhöfninni upp á hamborgara í Hafnarstrætinu. Var það gert og tókst í alla staði mjög vel. Frá Reykjavík var haldið upp á Akranes og segir ekki frekar af ferðum áhafnarinnar.
Þess ber að sjálfsögðu að geta að áhöfn forsetans er tilbúin til að taka starfsmenn í fræðsluferð ef áhugi er fyrir hendi og annir og veður leyfa.