Síðastliðinn þriðjudag kom hið nýja leiðangurskip Le Commandant Charcot í fyrsta skipti til hafnar í Reykjavík.
Skipið sem er í eigu franska skipafélagsins Compagnie du Ponant, ber nafn franska landkönnuðarins Jean-Baptiste Charcot sem fórst með skipi sínu Pourquoi-Pas ? og áhöfn við Álftanes á Mýrum árið 1936.
Skipið er einnig merkilegt fyrir þær sakir að það er sérsmíðað til að sigla í hafís og vélar þess geta brennt bæði skipagasolíu og gasi.
Á myndinni eru Gísli Jóhann Hallsson yfirhafsögumaður og Garcia Etienne Marie Didier skipstjóri Le Commandant Charcot að skiptast á virðingarvottum en það er jafnan gert þegar ný farþegaskip hefja komu sínar til Faxaflóahafna.