Arngrímur B. Jóhannsson, flugkappi, dreif hafnarstjóra og aðstoðarhafnarstjóra með sér í flugferð yfir Gömlu höfnina í Reykjavík í gær og lenti sjóflugvél sinni á Ytri-höfninni. Í framhaldi „sigldi“ hann inn í höfnina og kannaði aðstæður. Arngrímur hefur áður lent á hafnarsvæðinu – en fátt hefur verið um aðrar lendingar flugvéla á hafnarsvæðinu á liðnum árum og áratugum. Myndin hér til hægri er tekin af RAX og sýnir þennan velheppnaða viðburð.
Flotbryggjan sem Arngrímur kom að er ný og Arngrímur því fyrsti viðskiptavinur hafnarinnar við þetta mannvirki þótt ekki legði hann vélinni að bryggjunni. Lending Arngríms leiðir hugann hins vegar að flugi fyrr á árum.
Í Skerjafirði var aðstaða flugbáta, en lagðist af um og eftir seinna stríð. Eflaust eru þeir flugmenn kunnastir sem lent hafa í Reykjavíkurhöfn, að Arngrími undanskildum, þeir Charles Lindbergh og Balbo flugmarskálkur og flugmálaráðherra Ítalíu. Báðir komu þeir á land í Reykjavíkurhöfn árið 1933.
Hvort flugumferð um höfnina muni aukast á næstunni skal ósagt látið – en Arngrímur hefur minnt okkur á að höfnin er ekki síður ákjósanleg flughöfn en skipahöfn.