Ár 2016, föstudaginn 9. desember kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman til fundar í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og hófst fundurinn kl. 10:00.
Mættir:
Dagur B. Eggertsson
Líf Magneudóttir
Þórlaug Ágústsdóttir
Ólafur Adolfsson
Björgvin Helgason
Magnús Smári Snorrason
Björn Blöndal
Varafulltrúi:
Halldór Halldórsson
Áheyrnarfulltrúar:
Ingibjörg Valdimarsdóttir
Sigríður Bergmann
Auk þess sátu fundinn: Jón Þorvaldsson, aðstoðarhafnarstjóri, Vignir Albertsson, skipulagsfulltrúi, Guðmundur Eiríksson forstöðumaður tæknideildar og Gísli Gíslason, hafnarstjóri, sem jafnframt ritar fundargerð.
1. Málefni Silicor – minniblað hafnarstjóra dags. 29.11.2016. Viðræður við Terry Jester, John Beaver, Tom O´Brien og Davíð Stefánsson fulltrúa Silicor.
Fulltrúa Silicor gerðu grein fyrir stöðu verkefnisins.
Stjórn Faxaflóahafna samþykkir að veita hafnarstjóra umboð til að fresta gildistökuákvæði samninga við SIlicor til 20. janúar 2017. Hafnarstjóra falið að afla frekar gagna um stöðu málsins og leggja fyrir næsta fund hafnarstjórnar.
2. Bréf Hafnasambands Íslands dags. 16.11.2016 þar sem komið er á framfæri ályktun Hafnasambandsþings um umhverfismál.
Lagt fram.
3. Lóðamál:
a. Umsókn Köfunarþjónustunnar dags. 16.11.2016 um lóð á svæði utan Klepps.
b. Umsókn Idea ehf. dag. 28.11.2016 um lóð fyrir 12.500 m2 vélaverkstæði Hamars ehf. á svæðinu utan Klepps.
Umsóknirnar lagðar fram. Á meðan unnið er að skipulagi svæðisins utan Klepps verða umsóknir um lóðir ekki teknar til afgreiðslu.
4. Skipulagsmál:
a. Tillaga um skipulag á svonefndum Línbergsreit við Fiskislóð.
Hafnarstjórn gerir fyrirvara um nýtingarhlutfall, bygginarmagn og byggðamynstur, en samþykkir að óska eftir umsögn skipulagsráðs Reykjavíkur um fyrirliggjandi tillögur. ÓA víkur af fundi.
b. Ýmis skipulagsmál á Grandagarði. Minnisblað hafnarstjóra dags. 30.11.2016.
Lagt fram.
c. Erindi OLÍS dags. 5.12.2016 þar sem óskað er eftir breytingu á deiliskipulagi vegna fyrirhugaðra framkvæmda félagsins á lóðinni Klettagarðar 27 undir starfsemi félagsins.
Hafnarstjórn samþykkir að heimila umsækjanda að óska eftir breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar og að miðað verði við að nýtingarhlutfall verði 1,0. Við útfærslu tillögunnar er áskilið að umsæjandi hafi samráð við starfshóp sem vinnur að forsendurgerð fyrir deiliskipulag á aðliggjandi lóðum við Köllunarklettsveg.
d. Bréf umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar dags. 14.11.2916 varðandi breytingu á landnotkunarskilmálum í miðborgarkjarna (Ma1). Takmarkanir á heimild til gistiþjónustu.
Lagt fram.
e. Bréf umhverfis- og skipulagssviðs, Ann María Andreasen, ásamt fylgigögnum dags. 7.11.2016 þar sem óskað er umsagnar erindi varðandi breytingu deiliskipulags á Grandagarði 8.
Afgreiðslu frestað til næsta fundar.
5. Erindi Skinnfisk ehf. varðandi vörugjöld af fiskúrgangi dags. 20.11.2016.
Hafnarstjóra falið að afla frekari gagna fyrir næsta fund stjórnar.
6. Greinargerð fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar til borgarstjórnar um 9 mánaða uppgjör Faxaflóahafna sf.
Lögð fram.
7. Málefni Sindraportsins hf. (áður Hringrás hf.) – Klettagarðar 7 og 9. Minnisblað hafnarstjóra dags. 21.9.2015 og samantekt slökkviliðsstjóra SHS dags. 2.12. 2016.
Vísað er til minnisblaðs hafnarstjóra, dags. 21. september 2015, um stöðu lóðamála að Klettagörðum 9, Reykjavík þar sem lóðarleigusamningur Sindraportsins hf. (áður Hringrás hf.), kt. 420589-1319, er fyrir allnokkru runninn út. Upphaflegur leigusamningur um lóðina var gerður árið 1970. Samningurinn var endurnýjaður þann 28. desember árið 1983 og gilti hann til ársins 1993. Í ágúst árið 2003 barst Reykjavíkurhöfn erindi frá Hringrás hf. um að leigusamningurinn yrði framlengdur og var hafnarstjóra falið að ræða við bréfritara. Í byrjun árs 2005 var samþykkt í stjórn Faxaflóahafna sf. að endurnýja lóðarleigusamning Hringrásar, en aldrei var gengið frá málinu með undirritun samnings og þinglýsingu hans. Árið 2009 voru lóðamál Hringrásar hf. tekin fyrir í stjórn Faxaflóahafna sf. á ný og eftirfarandi bókað:
„Ef af framkvæmdum verður við gerð Sundaganga er það tillaga Vegagerðarinnar að einn gangamunni komi upp á því svæði sem Hringrás hefur aðstöðu. Að auki telur stjórn Faxaflóahafna sf. að starfsemi fyrirtækisins sé betur fyrir komið til framtíðar á öðrum stað. Því samþykkir stjórn Faxaflóahafna sf. að framlengja lóðarleigusamning fyrirtækisins við Hringrás um 5 ár, með fyrirvara um að framkvæmdir við Sundagöng hefjist fyrr, en felur hafnarstjóra að ræða við fulltrúa Hringrásar um möguleikann á flutningi fyrirtækisins á framtíðar athafnasvæði.“
Upplýsingum um ákvörðun þessa og drögum að samningi á grundvelli hennar var komið til Hringrásar hf. en ekki var gengið frá samningi milli aðila. Samkvæmt þeim skilmálum er Hringrás hf. stóð til boða átti leiguafnotum félagsins af lóðinni að ljúka á árinu 2014.
Sem kunnugt er hafa a.m.k. þrír eldsvoðar komið upp inni á lóð Sindraportsins hf. (áður Hringrás hf.), þ.e. árið 2004, 2011 og 2016. Af hálfu eldvarnareftirlits Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins liggur fyrir sú afstaða að fullreynt sé með úrbætur á aðstöðu Sindraportsins hf. í Klettagörðum 9, m.a. með hliðsjón af stærð lóðarinnar og nálægðar við íbúðabyggð. Sé horft til tíðra eldsvoða á lóðinni og þeirra efna sem safnað er þar saman liggur fyrir að rekstur endurvinnslustöðvar á þessum stað getur leitt af sér almannavá. Slíkt staða er óviðunandi að áliti Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Faxaflóahafna sf. sem eiganda viðkomandi lóðar.
Með hliðsjón af framangreindu hyggjast Faxaflóahafnir sf. segja Sindraportinu hf., kt. 420589-1319, (áður Hringrás hf.) formlega upp afnotum af lóðinni Klettagarðar 9, Reykjavík, og er fyrirætlun stjórnar félagsins eftirfarandi:
a) Afnotum Sindraportsins hf. (áður Hringrás hf.) verði sagt upp og miðað við að lóðin verði rýmd eigi síðar en í árslok árið 2017.
b) Með vísan til 3. greinar síðastgildandi lóðarleigusamnings frá 1983 er gerð sú krafa að leigutaki (Sindraportið hf.) annist hreinsun lóðarinnar og brottflutning á úrgangi og rusli sem stafar frá starfsemi félagsins.
c) Hafnarstjóra Faxaflóahafna sf. verði falið að skoða hvort rétt sé að nýta kauprétt á húsum og mannvirkjum á lóðinni skv. 7. grein síðastgildandi lóðarleigusamnings.
Faxaflóahafnir sf. veita Sindraportinu hf. 20 daga frest til að til að koma að sjónarmiðum sínum og/eða andmælum við framangreindum áformum félagsins áður en ákvörðun verður tekin í málinu. Hafnarstjóra er falið að koma samþykkt þessari til Sindraportsins hf.
8. Frumdrög Yrkis arkitekta dags. 2.12.2016 varðandi rýmisathugun og umferðarmál í Gömlu höfninni frá Austurbakka að Vesturbugt.
Hafnarstjóri og skipulagsfulltrúi gerðu gein fyrir þeirri vinnu sem unnin hefur verið. Hafnarstjórn samþykkir að kynna efnið fyrir umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar og fyrirtækjum í hafnsækinni ferðaþjónustu.
9. Minnisblað aðstoðarhafnarstjóra dags. 3.12.2016 varðandi stöðu og ástandsmat mannvirkja í slippnum.
Aðstoðarhafnarstjóri gerði grein fyrir þeim viðhaldsverkefnum sem nauðsynlegt er að fara í. Hafnarstjórn er fylgjandi því að starfsemi slipppsins haldi áfram á komandi árum samþykkir því að fara í þær viðhaldsframkvæmdir sem gerð er grein fyrir.
10. Drög að endurnýjun samstarfssamnings Faxaflóahafna sf. og Íslenska sjávarklasans ehf.
Hafnarstjórn samþykkir samninginn.
11. Erindi Björgunarsveitarinnar Ársæls dags. 1.12.2016, um viðlegupláss og leigu verbúðar undir búnað á landi.
Hafnarstjórn tekur jákvætt í erindið og felur hafnarstjóra að vinna að útfærslu þess.
12. Minnisblað hafnarstjóra um málþing Faxaflóahafna sf. dags. 23.11.2016.
Lagt fram.
13. Upplýsingabeiðni Samkeppniseftirlitsins til Faxaflóahafna sf. dags. 1.12.2016.
Hafnarstjóra falið að taka saman umbeðin gögn.
14. Forkaupsréttarmál:
a. Erindi Fasteignamarkaðarins ehf. dags. 29.11.2016 þar sem óskað er eftir að fallið verði frá forkaupsrétti á hluta eignar að Fiskislóð 45, fastanr. 229-6858. Kaupandi 1977 ehf. 421111-0810. Seljandi Baldur Bergsson kt. 140791-3269 og Baldur Hermanns Bergsson kt. 290766-4279.
Hafnarstjórn staðfestir að fallið sé frá forkaupsrétti enda verði nýting lóðar í samræmi við deiliskipulag og lóðarleigusamnings. ÓA.
15. Önnur mál.
a. Starfsmannamál – umsóknir um starf skipulagsfulltrúa.
b. Laun stjórnar.
Þrátt fyrir samþykkt aðalfundar Faxaflóahafna sf. þann 26. maí s.l. að stjórnarlaun skuli samsvara flokki 1 í launakerfi fastra nefnda hjá Reykjavíkurborg samþykkir stjórn Faxaflóahafna sf. að launin taki frá 1. janúar mið af 2. flokki fastra nefnda hjá Reykjavíkurborg. Stjórnin beinir því til eigenda félagsins að staðfesta samþykkt þessa á fundi eigenda. HH situr hjá við afgreiðslu málsins vegna þess að ekki er búið að taka endanlega ákvörðun um tengingu nefndarlauna hjá Reykjavíkurborg í tengslum við hækkun þingfararkaups.
Fleira ekki gert,
fundi slitið kl. 12:15