Í dag voru undirritaðir samningar milli Faxaflóahafna sf. og Björgunar ehf. um rýmingu Björgunar ehf. af lóðinni Sævarhöfði 33 og gerð 25.000 m2 landfyllingar sem fyrsta áfanga í stækkun Bryggjuhverfisins. Samningarnir leysa úr áratuga löngum ágreiningi um gildi samninga aðila frá 1968 og 1994. Þeir Dagur B. Eggertsson, formaður stjórnar Faxaflóahafna sf., Gísli Gíslason, hafnarstjóri og Lárus Dagur Pálsson, framkvæmdastjóri Björgunar ehf. undirrituðu samningana.
Samningarnir fela það í sér að Faxaflóahafnir sf. kaupa þrjár húseignir Björgunar ehf. á svæðinu og laust malarefni á lóðinni, sem notað verður til framkvæmda við gerð 25.000 m2 landfyllingar þegar framkvæmdaleyfi fæst, en Reykjavíkurborg vinnur nú að því að ljúka umhverfismati vegna gerð landfyllinga samkvæmt aðalskipulagi borgarinnar.
Um 36.000 m2 lóðarinnar skilar Björgun ehf. til Faxaflóahafna sf. um næstu áramót, en á meðan framkvæmdum við landfyllingnuna stendur fær Björgun ehf. 40.000 m2 leigða á skammtímaleigusamningi. Leigutíminn er til loka maímánaðar 2019. Þá verður farið í að fjarlægja fínefni sem runnið hafa frá lóð Björgunar ehf., á starfstíma fyrirtækisins og verður það unnið í áföngum utan göngutíma laxfiska á árunum 2017 – 2020. Alls er um að ræða 196.000 m3 af efni, en um leið verður siglingarrenna að Bryggjuhverfishöfn hreinsuð og dýpkuð.
Samningar við Björgun ehf. hafa það í för með sér að starfsemi fyrirtækisins færist annað, landrými eykst fyrir íbúðabyggð á svæðinu og unnt verður að hefja vinnu við deiliskipulag þess.