Faxaflóahafnir sf. í samvinnu við Orkuveituna, Veitur, Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands fengu Darra Eyþórsson M.sc. í umhverfisverkfræði til að vinna skýrslu um möguleika á aukinni notkun endurnýjanlegra orkugjafa við Faxaflóahafnir sf. Umræða um landtengingar skipa hefur verið ofarlega á baugi síðustu misseri og mikilvægt að kortleggja stöðuna með það að markmiði að draga úr útblæstri skipa í höfnum. Verkefnið er viðamikið og þrátt fyrir að nú sé boðið upp á landtengingar fyrir togara og smærri skip er ljóst að átaks er þörf, sem mikilvægt er að vinna að á næstu árum.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að þó svo að mengun fylgi skipaumferð þá er það eftir sem áður hagkvæmasti flutningsmátinn og anna um 90% af öllum flutningum í heiminum og valda um 2,2% af útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Talið er að heildar losun sjávarútvegs á Íslandi séu um 10% af heildar losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum, en að hlutur Faxaflóahafna sf. af eigin starfsemi sé um 0,01%.
Í skýrslunni er ítarlega farið yfir stöðu mála varðandi möguleika á landtengingu skipa, reifað til hvaða ráð þurfi að grípa svo unnt verði í framtíðinni að tengja skip við háspennukerfi, kostnaður áætlaður og bent á ýmsa þætti sem vinna þarf að á næstu misserum. Á það er einnig bent að háspennukerfi sé mjög dýrt í uppsetningu og ekki líkur á að tekjur af raforkusölu geti staðið undir stofnkostnaði. Því sé mikilvægt að framlög komi frá ríkissjóði í slíkar framkvæmdir ef háspennutengingar skipa eigi að verða raunveruleiki, en erlendis hafa slík verkefni verið styrkt.
Skýrsla Darra er mjög mikilvægt framlag til mótun framtíðar stefnu um landtengingar rafmagns og honum þakkað fyrir mjög vel unna skýrslu.
Skýrslu Darra má sjá hér: Forkonnun-Orkumal-i-hofnum loka
Helstu niðurstöður Darra eru eftirfarandi:
- Mælt er með að Faxaflóahafnir útbúi útstreymisbókhald fyrir viðskiptavini sína.
- Mælt er með að Faxaflóahafnir bæti upplýsingum um umhverfismál viðskiptavina sinna í Grænt bókhald fyrirtækisins.
- Kortleggja þarf þörf skipa fyrir raforku og sundurliða vænta orkuþörf eftir núverandi og væntum tengipunktum við hafnirnar.
- Útfrá þarfagreiningu þarf að uppfæra tengibúnað við hvern tengipunkt svo unnt verði að sinna þörfum allra viðskiptavina.
- Sundurliða þyrfti kostnaðarskilvirkni uppbyggingar á hverjum tengipunkti fyrir sig svo unnt sé að forgangsraða fyrirhugaðri uppbyggingu.
- Skýra þarf kostnaðarþátttöku hagsmunaraðila fyrir fyrirhugaða uppbyggingu.
- Við endurhönnun rafdreifikerfis þarf að hafa samráð við helstu viðskiptavini hafnanna og áætla framtíðar orkuþörf þeirra m.t.t. endurnýjunar skipaflota og tækjabúnaðar.
- Meta þarf áhrif löggjafar sem skylda myndi skip til að tengjast landorkukerfum og bera saman við áhrif núverandi reglugerða.
- Niðurstöður benda til að verulega megi draga úr útblæstri mengunarefna á hafnarsvæðum með landtengingum eða sem nemur um 3,9% af heildarútstreymi frá sjávargeiranum.
- Miklum árangri mætti ná i að draga úr útblæstri staðbundinna mengunarefna með því að skilgreina ECA svæði innan íslenskrar lögsögu.
- Niðurstöður benda til að kostnaðarskilvirkni landtenginga sé í meðallagi miðað við aðra kosti í samdrætti útstreymis gróðurhúsalofttegunda sem hafa verið til skoðunar undanfarið.
- Auknar landtengingar auðvelda stjórnvöldum að standast markmið sín í loftlagsmálum í samræmi við alþjóðasamninga, s.s. Parísarsamkomulagið
- Auknar landtengingar greiða fyrir frekari uppbyggingu íbúðarbyggðar í grennd við hafnarsvæði.