Nú stendur yfir undirbúningur að því að ná Perlu á flot, en hún hefur legið á botni Gömlu hafnarinanr við Ægisgarð síðan 2. nóvember. Norðanstinningur hægir á aðgerðum en annars er ráðgert að hefja dælingu úr skipinu þegar viðeigandi tæki, dráttarbátar og Árni Friðriksson eru komin í þá stöðu sem meðfylgjandi mynd sýnir.
Björgun, tryggingarfélag Björgunar, ráðgjafar og verktakar hafa unnið að undirbúningi aðgerða og byggist hún m.a. á því að skipið hefur verið þétt betur en áður, öflugri dælur eru til taks og með ekjubrú Faxaflóahafna sf., dráttarbátum Faxaflóahafna sf. og Árna Friðrikssyni er ætlunin að styðja við Perlu þar sem stöðugleiki hennar verður viðkvæmur þegar dæling hefst úr rýmum skipsins.
Í dag eru liðin 98 ár frá því að Gamla höfnin var tekin formlega í notkun og á þeim tíma sem liðinn er hefur höfnin verið uppspretta ýmissa viðburða – margra sögulegra – en einnig verkefna sem hefur þurft að leysa – eins og að ná skipum af botni hafnarinnar. Perla er þó með stærri skipum sem hafa sokkið í höfninni og vonandi að aðgerðin í dag leysi málið. Verkefnið í dag er vandasamt en mun á endanum hafast.