Ekki verður sagt að innri vefurinn hafi verið sérstaklega virkur til upplýsingagjafar síðustu mánuði – en batnandi mönnum best að lifa og því reynt að bæta að hluta úr. Hér er smá listi yfir verkefni sem eru í gangi akkúrat þessa dagana:
- Í gær, þriðjudaginn 10. nóvember, var undirritað samkomulag við sænska fyrirtækið Inport Intelligent Port Systems AB um kaup á nýju hafnarkerfi. Hafnarkerfið sem við notumst við er orðið ævafornt og var heimasmíðað á sínum tíma og hefur dugað ágætlega. Nú er hins vegar ljóst að það kerfi verður ekki þróað lengra og skynsamlegt að snúa sér að klerfi sem aðrar hafnir í nágrannalöndum okkar nota. Inport var áður í eigu Helsingborghafnar – en er nú sjálfstætt fyrirtæki. Það hefur selt PORTIT kerfið til tæplega 40 hafna m.a. Helsingborghafnar, Kaupmannahafnar/Malmö, Gautaborgar og fleiri aðila – stórra og smárra. Nokkur tíma mun taka að setja kerfið upp og þjálfa þá sem eiga að nota kerfið, en kerfið verður væntanlega gangsett í mars eða apríl á næsta ári. Auk þess að ná utan um alla skráningu vegna komu og brottfara skipa, þjónustu við þau og fleira þá opnast möguleikar á aukinni rafrænni vinnslu við ýmsa þætti sem verða þróaðir áfram.
- Unnið er að undirbúningi að ná Perlunni upp – Björguna og tryggingarfélag Björgunar ásamt verktökum og ráðgjöfum eru að setja saman áætlun um aðgerðir sem vonanid duga. Áætlunin mun birtast fljótlega.
- Málþing Faxaflóahafna sf. verður haldið í Hörpunni miðvikudaginn 25. nóvember kl. 16:00. Þar verður m.a. fjallað um umhverfis- og skipulagsmál. Undirritaður mun fara yfir verkefni okkar til bætts umhverfis, Svavar Svavarsson hjá HB Granda hf. mun fjalla um breytingar á fiskiskipaflota félagsins og minni útblástur, Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri mun fara yfir hugmyndir að skipulagi Sementsverksmiðjureitsins á Akranesi, Guðmundur Kristjánsson í Brim hf. mun fjalla um flutninga og skipulag og loks mun Kristín Soffía Jónsdóttir, formaður stjórnar fjalla um hugsanlegar Flóasiglingar milli Reykjavíkur og Akraness.
- Unnið er að undirbúningi að gerð nýs Kleppsbakka – en Jón Þorvaldsson er að undirbúa það verkefni að gera jarðlög klár fyrir niðurrekstur þils – en til þess þarf nokkrar sprengingar sem munu eiga sér stað á komandi vikum. Þegar hefur verið auglýst á EES svæðinu útboð á stálþilinu, sem væntanlega mun koma til landsins um eða upp úr miðju ári.
- Viðræður eru í gangi við fulltrúa Silicor um upphaf framkvæmda á Grundartanga. Að sögn þeirra gengur undirbúningur ágætlega þó svo að enn eigi eftir að hnýta ýmsa enda áður en allt verður klárt til framkvæmda.
- Beðið er eftir ákvörðun bæjarstjórnar Akraness um framhald undirbúnings við nýja landfyllingu á Akranesi fyrir starfsemi HB Granda hf., en um er að ræða á.a.g. 40.000 fermetra fyllingu þar sem HB Grandi hf. hyggst byggja nýtt frystihús, frystigeymslu og nýtt uppsjávarfrystihús.
- Lauslega hefur verið rætt við stéttarfélög starfsmanna um gerð kjarasamnings – en beðið var eftir niðurstöðu samninga SFR, lögreglunnar og Sjúkraliðafélagsins. Nú liggja þeir samningar fyrir og beðið viðbragða stéttarfélaganna um framhaldið. Lögð hefur verið áhersla á að nýir kjarasamningar liggi fyrir sem fyrst – og allra helst fyrir áramót.
Ekki var það fleira að sinni.
Gísli Gíslason, hafnarstjóri