Stjórn Faxaflóahafna sf. samþykkti fjárhagsáætlun ársins 2016 á fundi sínum í dag og að auki tillögu að breytingu á gjaldskrá sem tekur gildi 1. janúar 2016. Samhliða áætluninni voru samþykktar þrjár tillögur sem varða sölu á rafmagni til skipa, skipulag hafnarsvæða og greiningu á aðstöðuþörf vegna farþega skemmtiferðaskipa og hvalaskoðunar. ETS0179
Gert er ráð fyrir að tekjur Faxaflóahafna sf. verði á árinu tæpir 3,3 Ma.kr. og rekstrargjöld 2,8 Ma. kr. Til framkvæmda er áætlað að ráðstafa 2,1 Ma.kr., sem er nokkru hærri fjárhæð en mörg undanfarin ár. Stærstu framkvæmdirnar verða vegna byggingar nýs hafnarbakka utan Klepps og gatnagerðar á Grundartanga í tengslum við framkvæmdir Silicor. Að auki er gert ráð fyrir framkvæmdum við lenginu og endurnýjun Norðurgarðs í Gömlu höfninni.
Þá verður unnið að ýmsum verkefnum á sviði umhverfismála svo sem:
Á árinu 2016 verður m.a. unnið að úttektum á nokkrum þáttum á hafnarsvæðum fyrirtækisins og unnið að undirbúningi annarra verkefna. Þau helstu eru þessi:

  • Úttekt á ferlimálum í Gömlu höfninni.
  • Greining á sölukerfi rafmagns til skipa.
  • Skoðun á lýsingu á Grundartanga og hvernig megi stýra henni betur.
  • Gerð hljóðkorts fyrir Sundahöfn.
  • Gerð hljóðkorts fyrir Grundartanga.
  • Gerð tillagna um skipulag einstakra hafnarsvæða, sem grunn í aðalskipulagsvinnu.
  • Undirbúningur að öryggis- og umhverfisvottun Faxaflóahafna sf.
  • Tillögugerð um bætta aðstöðu vegna farþega skemmtiferðaskipa og hvalaskoðunar.

Fjáarhagsáætlun ásamt greinargerð hafnarstjóra má sjá hér:  Fjárhagsáætlun 2016 – Útgefin 14.9.2015
Þær tillögur sem samþykktar voru eru eftirfarandi:

  1. Sala rafmagns til skipa

Í reglugerð nr. 125 frá 2015 um brennisteinsinnihald í fljótandi eldsneyti er m.a. kveðið á um að til þess að stuðla að bættum loftgæðum og til að draga úr mengun skuli skip sem liggja við bryggju nota rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis eins og kostur er.  Sé ekki möguleiki á að nota rafmagn úr landi skulu skip sem liggja við bryggju í höfnum landsins ekki nota skipaeldsneyti með meira brennisteinsinnihald en 0,1% (m/m).
Í fjárhagsáætlun Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir fjármunum í fjölgun tengla í lágspennu þannig að fleiri skip en nú geti fengið rafmagn úr landi.
Stjórn Faxaflóahafna sf. samþykkir að frá og með 1. janúar 2016 skuli öll skip, sem liggja við hafnarbakka og geta tekið við rafmagni úr landi tengjast landrafmagni.  Þeim skipum sem unnt er að þjóna með þessum hætti er því óheimilt að keyra ljósavélar, nema viðvera þeirra í höfn sé innan við 6 klukkustundir.
Skip sem ekki geta tekið rafmagn úr landi skulu undantekningalaust uppfylla ákvæði reglugerðar um brennisteinsinnihald í eldsneyti.

  1. Aðstaða hafsækinnar ferðaþjónustu og farþegagjöld

Stjórn Faxaflóahafna sf. felur hafnarstjóra að láta vinna þarfagreiningu á uppbyggingu aðstöðu fyrir hafsækna ferðaþjónustu í Gömlu höfninni og við Skarfabakka.  Greiningin taki til komu farþega skemmtiferðaskipa og farþega hvalaskoðunarbáta, umfang nauðsynlegrar aðstöðu, móttöku- og farþegagjalda sem yrði lagt á frá og með 1. janúar 2018.  Þarfagreiningin verði lögð fyrir stjórn Faxaflóahafna sf. á árinu 2016.

  1. Skipulag hafnarsvæða

Stjórn Faxaflóahafna sf. samþykkir að fela hafnarstjóra að láta vinna heildar tillögu að framtíðar skipulagi hafnarsvæða fyrirtækisins, tillögurnar verði unnar með það að markmiði að mynda grunn fyrir aðalskipulag svæðanna ásamt því að stefnumörkun hafnarstjórnar séu skýr varðandi framtíð hafnanna. Tillögurnar verði unnar í samvinnu við skipulagsyfirvöld í þeim sveitarfélögum sem eiga Faxaflóahafnir ásamt  notendum á viðkomandi hafnarsvæðum.  Stefnt er að því að tillögurnar verði lagðar fyrir stjórn Faxaflóahafna sf. á árinu 2016.

FaxaportsFaxaports linkedin