Nýr hafnarkrani í eigu Eimskipa kom á Grundartanga í gær. Í frétt Skessuhorns af málinu segir eftirfarandi: “  Hollenska flutingaskipið Happy Dover kom til hafnar í Grundartanga um kvöldmatarleytið í gærkvöldi með nýjan og öflugan krana sem sinna á uppskipun og útskipun í Grundartangahöfn. Kraninn verður annar af tveimur stærstu sinnar tegundar hér á landi og mun geta lyft tveimur 20 feta gámum í einu. Kraninn er í eigu Eimskipa. Hann verður rafknúinn og því verður útblástursmengun frá honum í lágmarki. Eimskip hafa keypt tvo krana af þessari gerð. Happy Dover skilaði öðrum þeirra af sér við álverið á Reyðarfirði og tók þaðan eldri hafnarkrana og flutti til Reykjavíkur. Sá krani á að leysa af kranann Jaka sem þjónað hefur dyggilega í Sundahöfn um árabil. Jaki fer í yfirhalningu og verður síðan fluttur til Færeyja þar sem hann verður nýttur í framtíðinni. Nýja hafnarkrananum verður skipað upp í Grundartanga í dag.  
Bryggjukrani„Koma þessa krana er mikil tímamót fyrir Grundartangahöfn. Hingað til hefur verið treyst á skipakranana í uppskipunum og útskipunum þar og það getur verið seinlegt. Með þessum nýja krana er þannig verið að auka verulega afkastagetu Grundartangahafnar. Í raun er þetta undirstrikun á því mikla vörumagni sem fer í gegnum Grundartanga og er vaxandi,“ segir Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna.
Gísli segir að koma nýja hafnarkranans sé hluti af ákveðinni framtíðarsýn sem nú sé að taka á sig stöðugt skýrari mynd. „Við sjáum fyrir okkur að Sundahöfn í Reykjavík og Grundartangi í Hvalfirði munu spila miklu meira saman á komandi árum þegar kemur að innflutningi og útflutningi. Nýji kraninn opnar möguleika til að skipta flutningum meira en verið hefur þannig að þungavörur og plássfrekar fari frekar í gegnum Grundartanga en hitt um Sundahöfn. Í þessu sambandi má líka nefna að Eimskip hafa fengið úthlutað þremur lóðum á Grundartanga þar sem fyrirtækið hyggst reisa vöruhótel. Koma nýja hafnarkranans er einn eitt merkið um það hvernig menn horfa á þróunina hér við Faxaflóann. Þar eru að mínu mati framundan bæði skynsamlegar og jákvæðar breytingar,“ segir Gísli Gíslason hafnarstjóri.“

FaxaportsFaxaports linkedin