Stjórn Faxaflóahafna sf. hefur samþykkt ársreikning félagsins fyrir árið 2014. Meginniðurstaða ársreikningsins ber með sér að tekjur voru hærri en áætlað hafði verið, rekstrargjöld voru undir áætlun og framkvæmdir í samræmi við áætlun.

Skemmtiferðaskip að nálgast Reykjavíkurhöfn

Skemmtiferðaskip að nálgast Reykjavíkurhöfn


Heildartekjur ársins voru 3.048 þús. kr. sem er 221,0 mkr. yfir því sem áætlað var. Tekjurnar hækkuðu um 7,2% á milli ára, en hluti af þeirri hækkun er tekjufærsla söluhagnaðar. Almennt voru tekjuliðir yfir áætlun þ.m.t. vörugjöld sem voru 58,7 mkr. yfir áætlun, en heildarmagn vöruflutninga jókst milli ára um 2,7%. Rekstrargjöld voru 2.404 þús.kr. sem er 56,1 mkr. undir áætlun ársins 2014. Hagnaður eftir fjármunaliði var 644,4 mkr. 56,8 mkr. betri niðurstaða en árið 2013.
Varið var 1.014 þús. kr. til framkvæmda á árinu 2014 og voru helstu verkefnin eftirfarandi:
Í Gömlu höfninni í Reykjavík var unnið að 3. áfanga endurnýjunar efri hæðar Bakkaskemmu og með honum lýkur heildarfrágangi á innréttingum fyrir Sjávarklasann á allri efri hæð hússins. Þar hefur verið sköpuð aðstaða fyrir klasa fyrirtækja sem vinna að verkefnum tengdum sjávarútvegi. Þá var unnið að umhverfisfrágangi við Norðurgarð, en samhliða því hefur HB Grandi hf. reist þar nýja frystigeymslu og umhverfislistaverkið Þúfuna. Í Vesturbugt var byggð timburbryggja meðfram byggingu Sjóminjasafnisins að Grandagarði 8 og með þessari framkvæmd er í megindráttum lokið framkvæmdum við frágang þessa svæðis.
Í Sundahöfn var lokið við ýmis verkefni við lengingu Skarfabakka um 200 metra, en þessi bakkagerð hefur verið meginframkvæmd Faxaflóahafna sf. á árunum 2013 – 2014. Þá var hafinn undirbúningur að gerð 470 metra hafnarbakka utan Klepps, sem verður meginverkefni Faxaflóahafna sf. á árunum 2015 – 2018 og er ætlað að verða helsti hafnarbakki farmstöðvar Eimskips í framtíðinni fyrir stærri og djúpristari flutningaskip.
Á Grundartanga var unnið að lóða- og gatnagerð og hafnarframkvæmdum við lengingu Tangabakka, en reiknað er með að byggingu bakkans ljúki síðan vorið 2015. Hafinn var undirbúningur að úthlutun lóðar fyrir Silicor Materials á Katanesi á Grundartanga.
Á Akranesi var unnið að dýpkun innsiglingar og snúningssvæðis skipa við Aðalhafnargarð. Dýpkunarverki lauk á árinu 2014 og nú er um 10 m dýpi á þessu svæði.
Heildar niðurstaða ársreikningsins er vel viðunandi og fyrirtækið vel í stakk búið til þess að hrinda í framkvæmd þeim verkefnum sem fyrirjáanleg eru á næstu árum.
Hér má sjá ársreikninginn og hér má sjá Greinargerð hafnarstjóra vegna ársreiknings 2014.

FaxaportsFaxaports linkedin