Sem kunnugt er áformar iðnfyrirtækið Silicor Materials að reisa kísilverksmiðju á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit þar sem á að hreinsa kísilmálm til framleiðslu á sólarhlöðum. Skipulagsstofnun hefur þegar ákvarðað að umrædd hreinsun kísilmálms til framleiðslu á sólarkísil sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Í tengslum við vinnu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar réð sveitarstjórn umhverfisráðgjafarfyrirtækið Environice (Umhverfisráðgjöf Íslands ehf.), til að leggja óháð mat á ofangreind áform Silicor Materials, einkum með það í huga hvort starfseminni fylgi umhverfisleg áhætta. Sérstaklega voru skoðaðir áhættuþættir á borð við kísilryk; áhættumat vegna geymslu efna á vinnslusvæði; flúormengun o.fl. umhverfisleg atriði.
Environice skilaði niðurstöðum til sveitarstjórnar í „Minnisblaði um umhverfislega áhættu“ útgefnu í nóvember s.l og þar segir: „Í stuttu máli virðist fyrirhuguð verksmiðja Silicor Materials á Grundartanga stefna í að verða umhverfisvænsta stóriðja á Íslandi til þessa, í það minnsta í venjulegum skilningi stóriðjuhugtaksins.“ Að auki segir: „Meginniðurstaða þessa minnisblaðs er sú að umræddri starfsemi fylgi ekki umhverfisleg áhætta umfram það sem fram kemur í fyrirspurn Silicor Materials til Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar og í ákvörðun Skipulagsstofnunar dags. 25. apríl 2014.“
Í niðurstöðum Environice er umhverfisleg áhætta lágmörkuð en önnur áhætta metin sem hér segir: „Verkefnið er frumkvöðlaverkefni og slíkum verkefnum fylgja ævinlega bæði tækifæri og ógnir. Frá sjónarhóli sveitarstjórnar virðast tækifærin þó fljótt á litið vega mun þyngra. Áhættan er fyrst og fremst tæknilegs og rekstrarlegs eðlis og lítur að því sem fram fer innan dyra. Áhættan sem verkefnið felur í sér fyrir samfélagið virðist óveruleg miðað við það sem algengast er með verkefni af þessari stærð.“
Environice – Minnisblað Hvalfjarðarsveitar um umhverfislega áhættu 3.12.2014