Ár 2014, mánudaginn 22. september kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman til fundar í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og hófst fundurinn kl. 09:30.
Mættir:

Kristín Soffía Jónsdóttir

Líf Magneudóttir

S. Björn Blöndal

Þórlaug Ágústsdóttir

Júlíus Vífill Ingvarsson

Ólafur Adolfsson

Björgvin Helgason

Jónína Erna Arnardóttir

Áheyrnarfulltrúar:

Ingibjörg Valdimarsdóttir

Sigurður Ólafsson

Auk þess sátu fundinn: Jón Þorvaldsson, aðstoðarhafnarstjóri, Vignir Albertsson, skipulagsfulltrúi, Guðmundur Eiríksson, forstöðumaður tæknideildar og Gísli Gíslason, hafnarstjóri, sem jafnframt ritar fundargerð.
1. Fjárhagsáætlun ársins 2015 ásamt tillögu að gjaldskrá fyrir árið 2015. Greinargerð hafnarstjóra.
Hafnarstjóri gerði grein fyrir fyrirliggjandi áætlun ársins 2015 og gjaldskrá fyrir sama tímabil og var áætlunin og gjaldskrá samþykkt.
2. Fjárhagsáætlun Faxaflóahafna sf. fyrir árin 2019 – 2022 ásamt greinargerð.
Hafnarstjóri gerði grein fyrir langtímaáætlun Faxaflóahafna sf. og var áætlunin samþykkt.
3. Skipulagsmál.

a. Umferðarmál Austurbakka. Minnisblað aðstoðarhafnarstjóra, dags. 2.9.2014, og fundargerð frá fundi, dags. 27.8.2014. ( Geirsgata – yfirlit )

b. Köllunarklettsvegur og Héðinsgata.

c. Gelgjutangi.

d. Fiskislóð.

Aðstoðarhafnarstjóri gerði grein fyrir frumtillögum á breytingu á umferðar-málum um Miðbakka og Austurbakka. Samþykkt að formaður stjórnar og hafnarstjóri ræði við formann og sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og skipulagsstjóra á grundvelli umræðna á fundinum.
Hafnarstjóri gerði grein fyrir lóðamálum við Köllunarklettsveg og Héðinsgötu, svo og lóðamálum við Gelgjutanga. Samþykkt að fá kynningu á fyrirhuguðu deiliskipulagi í Vogabyggð.
Skipulagsfulltrúi greindi frá vinnu við fyrirhugaða tillögu að deiliskipulagi Örfiriseyjar.
4. Málefni Björgunar ehf. Samantekt hafnarstjóra um stöðu mála, dags. 18.9.2014, ásamt tölvupóstum hafnarstjóra og framkvæmdastjóra Björgunar ehf., dags. 16.9.2014.
Hafnarstjóri fór yfir viðræður Björgunar ehf., Faxaflóahafna sf. og Reykjavíkurborgar og stöðu mála.
Stjórn Faxaflóahafna sf. samþykkir eftirfarandi:
Vísað er til samantektar hafnarstjóra varðandi stöðu lóðamála á Sævarhöfða 33 þar sem lóðarleigusamningur Björgunar ehf. rann út haustið 2009. Allt frá árinu 2004 hafa átt sér stað viðræður um flutning á starfsemi Björgunar ehf. af lóðinni og könnun á möguleikum þess að koma starfseminni fyrir á öðrum stað. Afstöðu Faxaflóahafna sf. um að ekki verði um að ræða áframhaldandi útleigu á lóðinni hefur ítrekað verið komið á framfæri m.a. þegar NBI hf. seldi núverandi hluthöfum rekstur Björgunar ehf. Viðræður síðustu mánaða og ára hafa ekki borið árangur og því óhjákvæmilegt að undirbúa nauðsynlegar aðgerðir til að rýma lóðina. 
„Faxaflóahafnir sf. hyggjast því segja Björgun ehf. formlega upp afnotum á Sævarhöfða 33, Reykjavík og er fyrirætlun stjórnarinnar eftirfarandi: 

a. Afnotum Björgunar ehf. af 3.161 m2 lóðarinnar að Sævarhöfða 33, Reykjavík, verði sagt upp og miðað við að lóðin verði rýmd eigi síðar en í árslok árið 2016.

b. Björgun ehf. verði tilkynnt jafnhliða að félaginu beri að víkja af 73.503 m2 lóðarinnar að Sævarhöfða 33, Reykjavík, með sama fyrirvara og tilgreindur er í staflið a.

c. Hafnarstjóra verði falið að skoða hvort rétt sé að nýta kauprétt að fasteignum á lóðinni, á grundvelli mats dómkvaddra matsmanna ef ekki næst samkomulag um kaupverð. Kauprétturinn byggist á ákvæðum útrunnins lóðarleigusamnings aðila frá 21. ágúst 1969.

d. Haldið verði til haga skyldum Björgunar ehf. til hreinsunar aðliggjandi fjöru og botns þar sem steinefni og silt hafa runnið í sjó og myndað grynningar. 

Þótt afstaða Björgunar ehf. til einstakra þátta málsins liggi fyrir í bréfum, greinargerðum fyrirtækisins til Faxaflóahafna sf. og fundargerðum aðila samþykkir stjórn Faxaflóahafna sf. að veita Björgun ehf. 10 daga frest til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum til framangreindra áforma stjórnarinnar áður en ákvörðun verður tekin í málinu. Hafnarstjóra er falið að koma samþykkt þessari til Björgunar ehf. og tilkynna fyrirtækinu um 10 daga frest til þess að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.“
5. Gamla höfnin. Hugmyndir að markaðssetningu og matarmakaði.
Hafnarstjórn tekur jákvætt í þær hugmyndir sem Sjávarklasinn hefur unnið í samvinnu við Faxaflóahafnir sf. og felur hafnarstjóra að vinna áfram að málinu.
6. Erindi Olíudreifingar ehf., dags. 1.9.2014, um endurnýjun lóðaleigusamninga félagsins í Örfirisey og sameiginlegra lóðarleigusamninga ODR og Skeljungs hf.
Hafnarstjórn samþykkir að tímalengd lóðarleigusamnings olíubirgða¬stöðvar fylgi gildistíma aðalskipulags Reykjavíkurborgar, eða til ársins 2030.
7. Samantekt markaðsstjóra og forstöðumanns rekstrarsviðs um þróun í komu skemmtiferðaskipa og þjónustu við skipin, dags. 11.9.2014. Skýrsla Mannvits hf. frá árinu 2012 um landtengingar skipa.
Greinargerðin og skýrsla Mannvits hf. lögð fram.
8. Staða lóðamála á Grundartanga ásamt samantektum hafnarstjóra, dags. 19.8.2014 og 15.0.2014, og frumdrögum að samningum við SILICOR. Bréf Hvalfjarðarsveitar, dags. 21.8.2014, um breytingu aðalskipulags iðnaðar- og athafnasvæðis á Grundartanga og breytingu deiliskipulags austursvæðis.
Hafnarstjóri gerði grein fyrir efni fyrirliggjandi draga að samningum við Silicor og stöðu málsins.
9. Þróunarfélag um Grundartanga.
Hafnarstjóra falið að vinna áfram að málinu.
10. Skýrsla um atvinnulíf og starfsemi í Sundahöfn, unnin af Bergþóru Bergsdóttur, dags. í september 2014.
Hafnarstjórn færir Bergþóru Bergsdóttur bestu þakkir fyrir vel unna skýrslu. Samþykkt að skýrslan verði send fyrirtækjum í Sundahöfn og kynnt á málþingi í október.
Fleira ekki gert,
fundi slitið kl. 12:00

FaxaportsFaxaports linkedin