Himnarnir grétu þegar Víkingur AK 100 kvaddi heimahöfn sína á Akranesi og sigldi til Danmerkur.  Víkingur er eitt af fjórum systurskipum sem smíðuð voru fyrir íslenska útgerðaraðila árið 1960. Að Víkingi frátöldum voru þau Freyr, Maí og Sigurður og voru þau öll smíðuð í Bremerhaven í Þýskalandi. Víkingur Ak 100
Víkingur var smíðaður fyrir Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness, sem var fysta almenningshlutafélagið á Akranesi og eitt af fyrstu almenningshlutafélögum landsins. Hlutaféð var 75.000 krónur og hluthafarnir, 180 talsins. Skipinu var hleypt af stokkunum 5. maí 1960.  Víkingur var upphaflega útbúinn með 2400 hestafla Werkspoor aðalvél og ganghraði skipsins var 16  til 17 sjómílur á klukkustund sem þykir enn í dag býsna gott fyrir skip með þetta vélarafl og af þessari stærð. Skipið hefur alla tíð verið gert út frá Akranesi.
Upphaflega var skipið smíðað sem síðutogari til karfaveiða við Nýfundnaland. Því var fyrst breytt í nótaskip um 1967 og fór í framhaldi af því til síldveiða. Eftir að síldin hvarf var skipið notað sem síðutogari fram til ársins 1976 en þá var því aftur breytt til nótaveiða. Nýrri aðalvél var komið fyrir árið 1981 og rafmagnskerfið var þá endurnýjað með breytingu úr jafnstraumi í 380/220V riðstraum. Ný brú var sett á skipið árið 1989 og um leið var efsta íbúðarhæðin endurnýjuð.
Víkingur hefur frá upphafi verið mikið happafley og ýmist verið aflahæsta skipið eða með þeim aflahæstu í sínum flokki. Heildarafli skipsins á þessari hálfu öld síðan það bættist í flota landsmanna er rúmlega 930.000 tonn og þar af er bolfiskaflinn frá togaraárunum um 46.000 tonn. Víkingur hefur undanfarin ár lengst af legið í höfn á Akranesi en það hefur þó verið notað til loðnuveiða frá árinu 2005 með þeirri undantekningu að sumarið 2009 var það notað til flutninga á makrílafla.  Víkingur kvaddi síma heima höfn á Akranesi þann 11. júlí 2014  – eftir 54 ára farsæla þjónustu.

FaxaportsFaxaports linkedin