Á fundi stjórnar Faxaflóahafna sf. s.l. föstudag var m.a. gerð eftirfarandi samþykkt:
“ Hafnarstjóra er falið að láta vinna tillögu að deiliskipulagi Vesturhafnar í samvinnu við umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar enda er mikilvægt að farið sé yfir deiliskipulag Vesturhafnar í heild. Stjórn Faxaflóahafna sf. telur því ekki tímabært að taka ákvörðun um hvort breyta eigi deiliskipulagi sem heimili gisti- eða hótelstarfsemi á svæðinu.“
Atvinnustarfsemi í Vesturhöfninni í Reykjavík og í Örfirisey hefur verið að þróast á síðustu árum. Það hefur verið eindregin stefnumörkun að verja starfsemi útgerðar og fiskvinnslu í Vesturhöfninni en utar á Örfirisey hefur þróast margs konar starfsemi í sátt við hafnarstarfsemina.
Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar var opnað á þann möguleika að heimla gististarfsemi á svæðinu og hafa nokkrir aðilar sóst eftir slíkri heimild. Stjórn Faxaflóahafna sf. hefur haft þau mál til skoðunar að undanförnu, en telur samkvæmt ofanfgreindri samþykkt ekki tímabært að taka ákvörðun um hvort breyta eigi deiliskipulagi þannig að slíkt verði heimilað.
Reykjavíkurborg hefur almennt til skoðunar hvernig skipulagi hótel- og gistilóða eigi að vera háttað og rétt að slík úttekt eða skoðun liggi fyrir áður en lagt er í breytingar á deiliskipulagi í Vesturhöfninni. Þá er staðan sú í Vesturhöfninni og í Örfirisey að þar eru í gildi allnokkur deiliskipulög og tími kominn á að móta heildarskipulag svæðisins – en landgerð þar lauk á árinu 2006. Vesturhöfnin og Örfirisey eru í aðalskipulagi að stofni til merkt hafnarstarfsemi, en hluti svæðisins er með rýmri skilmálum, sem aðlaga þarf heildardeiliskipulagi svæðisins. Ekki liggur fyrir hvenær tillögur að deiliskipulagi verða tilbúnar en verkefnið verður unnið í samvinnu við umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar.