Nokkrir starfsmenn Faxaflóahafna sf. sigldu í dag frá Akraneshöfn í Borgarneshöfn. Hér á árum og áratugum áður voru siglingar tíðar í Borgarnes með ýmis konar varning og fólk auk þess sem þar var starfandi útgerðarfélagið Grímur, sem gerði út hið kunna aflaskip Eldborg. M.a. voru Borgfirðingar lykilmenn í stofnun Skallagríms hf., sem m.a. gerði út frá sjötta áratugnum þrjár ferjur, sem báru nafnið Akraborg. Eftir gerð Borgarfjarðabrúar dró verulega úr siglingum í Borgarnes, en þó komu þangað nokkur skip m.a. með olíu, en síðustu ár hafa siglingar þangað nánast lagst af. Þar eru þó nú nokkrir smábátaeigendur, sem gera út frá Borgarnesi – að ógleymdri bátasmíði Þorsteins Mána Árnasonar í Brákarey.
Tilgangur siglingar starfsmanna Faxaflóahafna sf. var að kanna siglingaleiðina að Borgarneshöfn, en til þess notuðu þeir lóðsbátinn Þjót, sem smíðaður var á Akranesi árið 1991. Þrátt fyrir norðvestan stinning framan af morgni gekk siglingin í Borgarnes vel og tók liðlega tvær klukkustundir. Á hafnarbakkanum tók Páll Brynjasson, sveitarstjóri, á móti áhöfn Þjóts og í framhaldi var skipasmíðaaðstaða Þorsteins Mána skoðuð. Að því loknu var haldið aftur á Akranes í rjóma blíðu og þangað komið síðla dags, en Þjótur hélt síðan áfram og aðstoðaði flutningaskipið Wilson Sky, sem hafði lokið við að landa áburði á Akranesi og beið brottfarar.
Lærdómurinn af siglingunni í Borgarnes er þessi: Ljóst er að siglingamerki beina sjófarendum ekki rétta leið að höfninni síðasta spölinn. Ef siglt er í merkjum má reikna með að strjúka sandbotn á fjöru. Siglingakort eru ófullnægjandi fyrir sjófarendur og dýptarmælingar úreltar. Miklir straumar eru við Borgarneshöfn og því afar mikilvægt að sjófarendur gæti sérstakrar varúðar og einnig gagnvart skerjum á leiðinni, sem reyndar má auðveldlega forðast með aðgát. Nú verður gengið í að bæta upplýsingar um dýpi og innsiglinguna og lagfæra siglingamerki. Þeir sem áhuga hafa á að sigla í Borgarnes skulu undantekningalaust hafa samband við hafnsögumenn Faxaflóahafna sf. og staðkunnuga menn sem hafa reynslu af siglingum í Borgarneshöfn.