Í gærkvöldi kom Þerney RE 101 til Reykjavíkur eftir veiðar í Barentshafi og á facebooksíðu áhafnarinnar má sjá eftirfarandi:
„Ægir Franzson er eins og sjóræninginn Long John Silver núna þegar hann siglir skútunni í höfn með verðmætasta farm sem skipið hefur borið að landi í einni veiðiferð, farmurinn er reyndar ekki gull, en gulls ígildi. Þorskur, ýsa og hágæða fiskimjöl. Strákarnir hafa staðið sig sérstaklega vel og er áhöfnin viss um að neytendur um víða veröld eiga eftir að njóta gæðanna og bera HB Granda gott orð fyrir gæðin.“ Faxaflóahafnir sf. býður áhöfnina velkomna heim!ÞerneyRE101

Þá er á heimasíðu HB Granda hf. athyglisverð frétt um áhrif frystiskemmunnar Ísbjarnarins á gámaflutinga: „Ferðum flutningabíla um miðborg Reykjavíkur hefur fækkað um 110 frá áramótum með tilkomu Ísbjarnarins, hinnar nýju frystigeymslu HB Granda á Norðurgarði. Frá áramótum hefur um 1.300 tonnum af frystum afurðum verið skipað út frá Ísbirninum. Magnið svarar til um 55 gáma með 24-25 tonn af afurðum.

HB Grandi - þúfa 2014Áður en Ísbjörninn var tekinn í notkun þurftu flutningabílar að aka með gáma frá Sundahöfn út á Granda og síðan aftur til baka í Sundahöfn.
Það er fyrirtækið Landar ehf. sem sér um löndunarþjónustu fyrir skip HB Granda í Reykjavík og á Akranesi og að sögn framkvæmdastjórans, Reynis Daníelssonar, hefur tilkoma Ísbjarnarins breytt miklu.
Starfsemin í Ísbirninum hófst 1. júní í fyrra og um leið urðu miklar breytingar á tilhögun við löndun og geymslu frystra afurða. Fyrir þann tíma þurftu flutningabílar að fara með frystigáma í gegnum miðbæinn og vestur á Granda þar sem afurðirnar voru settar í þá. Síðan var ekið með gámana um miðborgina inn í Sundahöfn, þaðan sem þeim var skipað út. Nú hefur verulega dregið úr ferðum stórra flutningabíla um Mýrargötu og Skúlagötu,“ segir Reynir Daníelsson.  Þá er eflaust hluti af jákvæðri þróun í þessu að HB Grandi hefur nú hafið að nýju löndun ferskfisks á Akranesi, en Sturlaugur hefur landað þar í tvígang á síðustu dögum, en með því minnka flutningar á fiski milli staða með flutningabílum. Það er því ljóst að HB Grandi er enn sem fyrr að þróa starfsemi sína. Allt eru þetta jákvæðar fréttir af starfsemi HB Granda hf.

FaxaportsFaxaports linkedin