Að viðstöddum forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni og fjölda gesta var listaverkið Þúfa, eftir Ólöfu Nordal fomlega „afhjúpuð“ á Norðurgarði í dag.
ÞúfaVilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda hf. bauð gesti velkomna og fór yfir feril verkefnisins.
Vilhjálmur gat þess að Þúfa væri skemmtilegt samstarf HB Granda og Faxaflóahafna sf., starfsmanna og stjórnmálamanna, en niðurstaðan væri til mikils sóma fyrir alla sem að verkefninu komu.  Hjálmar Sveinsson, formaður stjórnar Faxaflóahafna sf. sagði nokkur orð um tilurð verkefnisins áður en listakonan Ólöf Nordal sagði frá hugmyndinni að baki verkinu og hversu ánægjulegt hafi verið að vinna með „Þúfnahernum“ sem leysti allar þrautir í byggingu verksins og kvað rímur um leið.
Að lokum flutti borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr ávarp og nefndi að Þúfan væri okkar pýramídi og að hún yrði á efa ein af einkennum borgarinnar.
Í bland við ávörp og rímnakveðskap mátti hlýða á harmonikkuspil,  söng Karlakórs Reykjavíkur og kórs Filipeyskra starfsmanna HB Granda hf., en samkoman var hin hátíðlegasta og HB Granda hf. til mikils sóma.  Þess má einnig geta að nú hefur HB Grandi hf. afhjúpað Marshall-húsið á lóð fyrirtækisins, en húsið hefur fengið mikla utanhússendurbót.  Marshall-húsið er um margt merkilegt hús, en stóð lengi í skugga mjöltanka, sem fluttir voru á Vopnafjörð fyrir nokkrum árum.

FaxaportsFaxaports linkedin