Ár 2013, föstudaginn 7. júní kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman til fundar í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og hófst fundurinn kl. 09:00
Mættir:
Hjálmar Sveinsson
Júlíus Vífill Ingvarsson
Sveinn Kristinsson
Sigurður Sverrir Jónsson
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Varafulltrúi:
Björn Blöndal.
Áheyrnarfulltrúar:
Gunnar Sigurðsson
Erlingur Þorsteinsson
Auk þess sátu fundinn: Jón Þorvaldsson, aðstoðarhafnarstjóri, Guðmundur Eiríksson, forstöðumaður tæknideildar, Vignir Albertsson, skipulagsfulltrúi og Gísli Gíslason, hafnarstjóri, sem jafnframt ritar fundargerð.
1. Kosning varaformanns.
Tillaga var gerð um Pál Hjalta Hjaltason og var hún samþykkt.
2. Umhverfisúttekt á Grundartanga – skýrsla starfshóps.
Faxaflóahafnir sf. eru eigandi um 620 ha. landsvæðis á Grundartanga þar sem m.a. er rekin umfangsmikil iðnaðarstarfsemi. Járnblendiverksmiðja var þar reist árið 1978 og árið 1998 tók álver þar til starfa. Á síðustu árum hefur land á Grundartanga verið þróað í samræmi við viljayfirlýsingu eigenda Faxaflóahafna sf., um að taka á móti frekari atvinnustarfsemi. Þar hefur byggst upp ýmis konar þjónustu m.a. í tengslum við starfsemi stóriðjufyrirtækjanna. Landkostir á Grundartanga felast í góðri hafnaraðstöðu, öflugu afhendingarkerfi á rafmagni, landrými og nálægð og greiðum samgöngum við öflugan vinnumarkað. Fjarlægð frá þéttbýli er heppileg, en á móti kemur að í grennd við Grundartanga er stundaður landbúnaður og ferðaþjónusta, sem taka þarf tillit til. Á grundvelli umhverfisstefnu Faxaflóahafna sf. og í ljósi ákveðinnar tortryggni varðandi umhverfismælingar og umhverfisvöktun ákvað stjórn Faxaflóahafna sf. að láta vinna sjálfstæða og óháða úttekt á umhverfismálum á Grundartanga. Tilgangur þeirrar úttektar var að útbúa lista yfir þá umhverfisþætti sem tengjast iðnaði á Grundartanga, leggja mat á mengunarálag og nýta niðurstöðu úttektarinnar til að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu. Niðurstöður skýrslunnar bera eftirfarandi með sér:
- Kröfur sem gerðar eru til iðnfyrirtækjanna á Grundartanga eru sambærilegar og jafnvel strangari en kröfur sem gerðar eru til sambærilegrar starfsemi erlendis.
- Umhverfisvöktun svæðisins gefur skýra mynd af mengun á svæðinu.
- Umhverfismælingar eru hlutlausar og unnar af hæfum aðilum.
- Þolmörkum á Grundartanga skv. starfsleyfum er náð varðandi styrk brennisteinstvíoxíðs, sem setur ákveðnar skorður varðandi framtíðar uppbyggingu.
- Ástæða er til að fylgjast með nokkrum mengunarþáttum – einkum með framtíðaruppbyggingu í huga.
- Bregðast þarf við þegar niðurstöður nýs dreifingarlíkans liggja fyrir.
- Bæta þarf upplýsingar um ætlaða dreifingu á flúor, einkum við óhagstæð veðurskilyrði vegna grasbíta.
- Stuðla þarf að auknu samráði þeirra sem koma að vöktun svæðisins með stofnun samráðsvettvangs.
Á grundvelli ofangreinds samþykkir stjórn Faxaflóahafna til eftirfarandi:
a) Stjórn Faxaflóahafna sf. beinir því til eigenda fyrirtækisins að mótuð verði stefna um framtíðaruppbyggingu á Grundartanga þar sem m.a. verði gert ráð fyrir framleiðslustarfsemi og þjónustu sem taki mið af niðurstöðu úttektarskýrslunnar m.a. varðandi brennisteinstvíoxíð. Áfram verði gert ráð fyrir iðnfyrirtækjum á svæðinu. Þá verði rætt við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar um skipulag svæðisins. Miðað verði við að framleiðsla og þjónusta fyrirtækjanna nýti græna orku og starfi samkvæmt umhverfismarkmiðum Faxaflóahafna sf.
b) Þeirri ósk er komið á framfæri við Umhverfisstofnun að stofnunin komi á fót samráðsvettvangi og auknu samráði milli þeirra aðila sem vinna að umhverfisvöktun á svæðinu. Þá verði framsetning umhverfisupplýsinga enn bætt þannig að íbúar í nágrenni svæðisins hafi greiðan aðgang að grundvallarupplýsingum varðandi stöðu mála.
c) Þeim tilmælum er beint til Umhverfisstofnunar og Norðuráls hf. að komið verði á upplýsingamiðlun til íbúa í grennd við Grundartanga svo að þeir geti brugðist við ef óhagstætt veðurfar er talið geta aukið líkur á að dreifing flúors verði umfram það sem þynningarsvæði og reiknilíkön gera ráð fyrir.
d) Þeim tilmælum er beint til Umhverfisstofnunar, Elkem Island ehf. og Norðuráls hf. að skýrsla starfshópsins um úttekt á umhverfisáhrifum verði tekin til sérstakrar umfjöllunar á vettvangi þessara aðila og tillögur skýrsluhöfunda nýttar til þess að frekari sátt megi nást um umhverfismál á svæðinu.
e) Faxaflóahafnir sf. lýsa sig reiðubúnar til að koma að þeim umhverfisverkefnum á Grundartanga, sem gætu orðið til þess að ná fram þeirri sátt í umhverfismálum á svæðinu, sem er íbúum, fyrirtækjum og framtíðaruppbyggingu nauðsynleg.
3. Minnisblað forstöðumanns tæknideildar dags. 6. júní 2013 varðandi framkvæmdir við Skarfabakka.
Forstöðumaður tæknideildar gerði grein fyrir stöðu málsins.
4. Málefni Björgunar ehf. og Malbikunarstöðvarinnar hf.
Hafnarstjóri greindi frá stöðu málsins.
5. Umsagnir Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur dags. 24.5. 2013 og Menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur dags. 24.5. 2013 varðandi umhverfislistaverk á Norðurgarði. Drög að samningi Faxaflóahafna sf. og HB Granda hf.
Hafnarstjórn samþykkir staðsetningu listaverksins og felur hafnarstjóra að ganga frá samkomulagi þar um.
6. Tillaga um staðsetningu listaverksins Járnsmiðurinn eftir Ásmund Sveinsson.
Málið rætt.
Gunnar vék af fundi.
7. Orðsending Reykjavíkurborgar dags. 25.3.2013 ásamt erindi Einars Þórs Einarssonar dags. 21.3.2013 þar sem reifuð er hugmynd um að koma upp litlum sölubásum við Skarfabakka innan tollfrjálsrar girðingar til sölu á íslensku handverki. Minnisblað hafnarstjóra dags. 29.5. 2013.
Hafnarstjóri fór yfir meginatriði málsins. Samþykkt að senda minnisblaðið Reykjvíkurborg.
8. Drög að samningi Faxaflóahafna sf. og Sjávarklasans árið 2013 – 2014.
Hafnarstjórn samþykkir samninginn.
9. Erindi FF 11 ehf. þar sem óskað er eftir hækkun á nýtingarhlutfalli lóðarinnar nr. 11-13 við Fiskislóð.
Hafnarstjórn getur fallist á að leita eftir deiliskipulagsbreytingu sem heimili umbeðna hækkun nýtingarhlutfalls með því skilyrði að viðbótar lóðagjald, sem nemi gatnagerðargjaldi Reykjavíkurborgar sé greitt Faxaflóahöfnum sf. og að umsækjandi greiði kostnað vegna breytingar á deiliskipulagi.
10. Forkaupsréttarmál.
a. Tölvupóstur Hjalta Mogensen, hdl. dags. 21.5.2013 varðandi sölu á eigninni Köllunarklettsvegur 2, Reykjavík. Seljandi Lýsing hf. en kaupandi Sýr ehf.
b. Erindi Bernharðs Bogasonar, hdl. f.h. FF 11ehf. þar sem óskað er eftir að fallið verði frá forkaupsrétti vegna fasteignarinnar Fiskislóð 11 – 13
Hafnarstjórn staðfestir að fallið sé frá forkaupsrétti enda verði nýting lóðar í samræmi við lóðarleigusamning og skipulag.
11. Önnur mál.
a. Faxaflóahafnir sf. – Stofnun ársins 2013.
Hafnarstjóri greindi frá því að Faxaflóahafnir sf. hafi verið útnefnd stofnun ársins 2013 í flokki stærri fyrirtækja borgar og bæja. Stjórnin færir stjórnendum og starfsfólki hamingjuóskir og þakkir fyrir frábært starf.
Fleira ekki gert,
fundi slitið kl. 11:30