Mestum botnfiskafla á landsvísu var landað í Reykjavíkurhöfnum Faxaflóahafna á síðastliðnu ári samkvæmt gögnum Fiskistofu. 65.666 tonnum var landað á árinu 2024, sem er ríflega 15% af öllum botnfiskafla sem landað var á Íslandi það ár. Þetta er aukning um rúmlega 7 þúsund tonn frá árinu 2023, sem má að einhverju leiti rekja til góðrar dragnótaveiði í Faxaflóa sem skilaði þúsund tonnum aukalega ásamt almennri aukningu í löndunum í Reykjavík. Landaður botnfiskafli í Vestmannaeyjum var 36.349 tonn og í Hafnarfirði 33.722 tonn.
Það varð loðnubrestur árið 2024 sem varð þess valdandi að landaður uppsjávarafli varð aðeins 10.300 tonn í öllum höfnum Faxaflóahafna. Akraneshöfn er mikilvæg löndunarhöfn uppsjávarafla og varð loðnubresturinn þess valdandi að aðeins 8.930 þúsund tonnum af uppsjávarafla var landað þar á árinu 2024.
Hafnir Reykjavíkur áfram mikilvægar sjávarútvegshafnir
Gamla höfnin í Reykjavík á sér yfir hundrað ára sjávarútvegs- og atvinnusögu og er samofin þeim samfélagsbreytingum sem hafa orðið í höfuðborginni og Íslandi öllu. Nýjar atvinnugreinar hafa vaxið fiskur um hrygg síðastliðna áratugi og sett myndarlegan svip sinn á hafnarlífið. Hafnirnar í Reykjavík eru mikilvægar botnfiskhafnir, og á starfssvæði Faxaflóahafna í Reykjavík er gleðilegt að sjá að sjávarútvegur er mikilvægur þáttur í starfseminni nú sem áður fyrr.
Aðalhafnargarðurinn á Akranesi lengdur
Til að bæta aðgengi fyrir fiskiskip, farþegaskip og önnur þau skip sem höfnin á Akranesi þjónustar verður ytri hluti Aðalhafnargarðsins lengdur um 120 metra. Heildarlengd þess hluta bakkans verður þá 220 m. Áætlað er að framkvæmdum ljúki á þessu og endurbætt bryggja mun þá þjóna enn betur hlutverki sínu sem löndunarhöfn fyrir uppsjávar- og botnfiskafla á vesturlandi.