Niðurstöður vöktunar á loftgæðum fyrir árið 2023 sýna að í öllum tilvikum er styrkur brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnissambanda og svifryks undir skilgreindum viðmiðunarmörkum samkvæmt reglugerð nr. 920/2016 líkt og árið 2022. Niðurstöðurnar voru teknar saman af Verkfræðistofunni Vatnaskil og má finna hér.

Faxaflóahafnir eiga loftgæðamæli sem staðsettur er í Laugarnesi og hafa loftgæði nú verið vöktuð í á þriðja ár. Tilgangurinn er að vakta áhrif útblásturs skipa sem liggja við landfestar á Skarfabakka á nærliggjandi umhverfi.  Mælingarnar í rauntíma eru aðgengilegar á vef Umhverfisstofnunar www.loftgaedi.is.

Við greiningu á mælingum er stuðst við mælingar á vindstefnu og vindhraða til að rekja uppruna þeirra efna sem mælast á loftgæðastöðinni, sem og upplýsingum um viðveru skipa í höfn. Í ljós kemur að greina má hækkun í styrk köfnunarefnissambanda í tengslum við viðverðu skipa við Skarfabakka, en styrkur er í öllum tilvikum vel undir viðmiðunarmörkum reglugerðar. Ekki er hægt að greina hækkun í styrk annarra efna vegna viðveru skipa, en loftmengun getur verið af ýmsum orsökum. Má þar nefna svifryk sem rekja má til umferðar sem og náttúrulegra orsaka og uppsprettur brennisteinsdíoxíðs sem geta verið náttúrulegar og frá bruna eldsneytis. Niðurstöður mælinga leiða í ljós að svifryk er ekki hægt að rekja sérstaklega til skipa heldur virðist það fremur eiga uppruna í umferð á Sæbraut eða í starfsemi á hafnarsvæðinu. Þá eru engin tengsl að sjá á styrk brennisteinsdíoxíðs við viðveru skipa við Skarfabakka. Hins vegar sést toppur þann 27. júlí 2023 sem á uppruna sinn frá eldgosinu við Litla-Hrút á Reykjanesskaga, en eldvirkni á Reykjanesskaga hefur verið stærsta uppspretta brennisteinsdíoxíðs á undanförunum árum.

 

FaxaportsFaxaports linkedin