Ár 2021, föstudaginn 17. september kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman um fjarfundarbúnað og í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og hófst fundurinn kl. 9:00

Mætt

Skúli Helgason, formaður
Örn Þórðarson

Um fjarfundarbúnað

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Magnús Smári Snorrason
Ragnar B. Sæmundsson
Daníel Ottesen
Marta Guðjónsdóttir
Sabine Leskopf

Ólafur Adolfsson, áheyrnarfulltrúi

Mætt
Pétur Óskarsson, áheyrnarfulltrúi

Auk þeirra voru Inga Rut Hjaltadóttir sviðsstjóri Framkvæmdasviðs, Gunnar Tryggvason, sviðsstjóri Viðskiptasviðs og Magnús Þór Ásmundsson, hafnarstjóri, sem ritaði fundargerð.

1. Öryggi, heilsa og umhverfi
Ekki höfðu orðið alvarleg öryggis- eða umhverfisatvik frá síðasta fundi. Framundan er undirbúningur fyrir vetrarvinnu í hálku og myrkri.

2. Mánaðaryfirlit hafnarstjóra
Lagt fram og kynnt af hafnarstjóra.

3. Forkaupsréttarmál:
a. Erindi Arndísar B. Sigurgeirsdóttur og Báru K. Kristinsdóttur um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eigninni að Fiskislóð 79A, Reykjavík. Fasta nr. 200-0047. Kaupandi AB Framtak ehf.
b. Erindi AB Framtaks ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eigninni að Fiskislóð 79A, Reykjavík. Fasta nr. 200-0047. Kaupandi Boutique Bella ehf.
c. Erindi AGROS Fiskislóð 37 ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eigninni Fiskislóð 37, Reykjavík. Fasta nr. 231-5172. Kaupandi Fiskislóð 35 ehf.
d. Erindi Sjávarbakkans ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eigninni að Fiskislóð 31, Reykjavík. Fasta nr. 250-0266 og 250-0242. Kaupandi SITL ehf.
e. Stofnun félags um eignir Skeljungs hf. við Örfirisey. Eignirnar eru við Hólmaslóð 1, 4 og 5 og við Eyjagarð 1, 2 og 3 í Reykjavík.
f. Nýtt félag Fiskislóð 65 ehf. óskar eftir forkaupsrétti yfir fimm fasteignum Íslandsbanka hf. við Fiskislóð 61-65, Reykjavík.
Ekki var fjallað um lið e þar sem fyrirliggjandi gögn gáfu ekki tilefni til þess. Hafnarstjóra var falið upplýsa málsaðila og eftir atvikum að kalla eftir frekari gögnum. Fyrir aðra liði staðfestir hafnarstjórn að fallið sé frá forkaupsrétti með venjulegum fyrirvara um að afnot lóðar falli að gildandi deiliskipulagi og lóðarleigusamningi.

4. Skipulagsmál
a. Erindi um byggingaráform að Köllunarklettsvegi 1
Skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna gerir ekki athugasemd við tillögu lóðarhafa, verið er að klára húsið eins og það var upphaflega teiknað auk þess sem verið er að færa öryggis- og brunavarnir að kröfum nútímans. Að mati skipulagsfulltrúa getur tillagan vel samræmst gildandi skipulagi þar sem nýtingarhlutfall er nægjanlegt þrátt fyrir texta um að byggja þvert á lóðir. Samþykkt af stjórn en fyrirvari á samþykktinni er að lóðarhafi skrifi undir nýjan lóðaleigusamning sem er í samræmi við gildandi gjaldskrá Faxaflóahafna.

b. Erindi um breytingu á deiliskipulagi að Korngörðum 13
Ekki er gerð athugasemd við breytingunni á byggingarreit og hækkun á nýtingarhlutfalli en grundun hússins er alfarið á ábyrgð lóðarhafa og þarf hann að kynna sér aðstæður á lóðinni og þær fergingar sem gerðar hafa verið m.t.t. byggingarreits og álags. Skipulagsfulltrúa er falið að tryggja að skilmálar í greinagerð deiliskipulagsbreytingu séu réttir miðað við ofangreint áður en breytingin er send á Reykjavíkurborg.

5. Fjárhagsáætlun 2022 og fjárfestingaráætlun 2022 – 2026
Útkomuspá 2021 og fjárhagsáætlun 2022 var lögð fram, kynnt af sviðsstjóra Viðskiptasviðs, rædd og samþykkt. Útkomuspá 2021 gerir ráð fyrir betri afkomu en áætlun gerði. Áætlun um fjárfestingar var rædd sérstaklega. Stjórn lýsti vilja til framsækni í fjárfestingum sem engu að síður væru skynsamar og arðsamar. Fjárfestingaráætlun fyrir 2022 var samþykkt en nánari umræða um fjárfestingar 2023 – 2026 ásamt umræðu um fjármagnsskipan verður tekin fyrir áramót.

6. Úrræði v. aðila í ferðaþjónustu
Hafnarstjóri kynnti aðgerðir í samræmi við umræðu á 208. fundi stjórnar. Ný gjaldskrá fyrir viðlegugjöld sem áætlað var að tæki gildi á árinu 2021 verður tekin upp í þremur áföngum 2021 – 2023.

7. Aðstaða til farþegaskipta
Hafnarstjóri kynnti vinnu sem hafin er vegna aðstöðu til farþegaskipta í Sundahöfn. Vinna við þarfagreiningu er hafin og búið er að gera hagaðilagreiningu. Starfshópur um verkefnið mun samanstanda af ráðgjafa sem verður verkefnisstjóri auk ÖHU-stjóra, markaðsstjóra, sviðsstjóra framkvæmdasviðs og sviðsstjóra innviða. Hagaðilar verða kallaðir að borðinu eftir þörfum og í samræmi við hagaðilagreiningu.

8. Önnur mál
Í upphafi fundar fór fram umræða um mannauðsmál og einkum um stefnu varðandi starfslok. Formaður stjórnar lagði til að hafnarstjóra yrði falið að hefja undirbúning að mótun stefnu um sveigjanleg starfslok.
Marta Guðjónsdóttir og Örn Þórðarson báru upp eftirfarandi tillögu: „Lagt er til að mótuð verði stefna um sveigjanleg starfslok hjá Faxaflóahöfnum þannig að starfsmenn hafi valfrelsi um að starfa áfram hjá fyrirtækinu þegar þeir ná eftirlaunaldri. Það gæti auk þess verið hagur fyrirtækisins að halda í starfsmenn lengur sem búa yfir mikilli reynslu og þekkingu þannig að hún glatist ekki.“ Tillögunni var vísað til umræðu á næsta fundi stjórnar.

FaxaportsFaxaports linkedin