Í þá daga er hin breiðu spjótin tíðkuðust í bankamálum og pólitík fóru þrír útgerðarvíkingar í leiðangur um Faxaflóann í leit að fæðu. Nánar tiltekið var leiðangurinn farinn laugardaginn 11. október og voru þar á ferð  sægarpar miklir og aflaklær þeir Jón forseti Sigurðsson, Vignir „skipulags“ Albertsson og Gísli kapteinn Gíslason.  Segir nú af ferð þeirra og skyldum málum. 

Það var á dögum Geirs Harðráða að kreppa mikil gekk yfir norðurhvel jarðar.  Var fátt til bjargar almúganum en róa til fiskjar og lögðu vitringar þrír á sjóinn í því skyni að bjarga þjóðarbúinu.  M.a. rifjaðist þá upp vísukorn sem gömul kona á Skaganum, Herdís Ólafsdóttir, orti á þeim tíma er Alþýðubankinn var yfirtekinn af Íslandsbanka – sem síðar varð Glitnir:

Ekkert er lengur sem lokkar  

lífsbjörgin dáin um sinn

herinn fékk Eyjuna okkar

auðvaldið bankann minn.

Í hverfulum heimi og óvssum létu úgerðarvíkingarnir og vitringarnir þrír úr höfn og blés kalt af norðri.  Ekki létu kapparnir það á sig fá heldur keyrðu aflaskipið Jón forseta sem mest þeir máttu gegn öldunni og fóru á tíðum grunnt – jafnvel svo grunnt við Kjalarnesið að kanna mátti þar aldin jarðlög.  En allt gekk vel og komust þeir á gjöful mið í Hvalfirðinum á skömmum tíma.  Sem auga væri veifað lyngdi – en sá guli gaf sig ekki.  Þrátt fyrir að rennt væri hollri og góðri beitu af kyni makríls og smokks þá var eftirtekjan rýr.  Ekki var það fyrr en kaptein Gíslason tók af skarið og hélt á óbilandi mið undan Heynesi að sá guli og sú gráa gáfu sig – og í erg og gríð innbyrtu þeir félagar spriklandi soðninguna, ýsu, þorsk, lýsu, kola og einn marhnút.

Þegar degi fór að halla var kominn fullur kassi af góðmeti og áfram var haldið þar til álitlegt magn af soðningu hafði verið innbyrt.  (Af tillitsemi við Fiskistofu er rétt að gorta ekki af magni í tonnum). Spegilsléttur sjór og blauðrautt sólarlag heiðraði útgerðarvíkingana sem voru hinir kátustu.  Gleymd var sorg og sút efnahagsmálanna um sinn – þótt upp rifjaðist gömul barnagæla úr höfuðborginni:

Íslensk stjórn nú ást og trú

öllum lýðnum boðar,

þjóðin með sitt þrotabú

þakklát úr því moðar.

Útgerðarvíkingarnir sigldu að loknum góðum degi með afla sinn í Reykjavíkurhöfn því eins og segir í textanum góða:  „Ekki er að spauga með íslenskt sjómannsblóð…..“  Að lokinni hefðbundinni tilkynningaskyldu til hafnsögunnar var aflanum öllum komið fyrir hjá Vigni skipulags og mun hann hafa varið helginni í flökun, snyrtingu og pökkun.

Þeir Gísli og Jón forseti héldu að því búnu á Skagann og sigldu í myrkrinu sælir og glaðir – að vanda.  Þeir lögðu að bryggju um það leyti sem hollendingar luku við að leggja íslendinga að velli í Rotterdam.  Ja – ólíkt hafast mennirnir að. 

Ekki þarf að orðlengja þetta frekar – nema að Vigni er borgið næstu mánuðina og áhöfnin á Jóni forseta að sjálfsögðu til reiðu ef draga þarf björg í bú.

Ekki var það fleira að sinni.

Gilbert Ó Sullivan

FaxaportsFaxaports linkedin