Ekki þarf að fjölyrða um þær hremmingar sem íslenskt samfélag hefur verið að ganga í gegnum að undanförnu og þær þrengingar sem eru framundan. Á starfsmannafundi fyrir skömmu var stuttlega gerð grein fyrir stöðu Faxaflóahafna sf. en á þeim tíma var óvissan í aðalhlutverki þannig að ekki var frá mörgu að segja á því stigi. Án þess að óvissunni hafi létt þá er í nokkrum orðum hægt að segja eilítið frá stöðu Faxaflóahafna sf. í þessum hremmingum öllum.
Fyrst skal frá því greina að Faxaflóahafnir sf. njóta þess að vera ekki um of skuldsett fyrirtæki. Stærstur hluti skulda fyrirtækisins er í íslenskum krónum til langs tíma á ágætum vöxtum. Eftirstöðvar erlends láns frá fyrri tíð verður greitt upp á fyrri hluta næsta árs. Vegna kaupa á nýjum dráttarbát, sem er nú á siglingu til Íslands, þá var ákveðið að taka evru-lán til þess að greiða andvirði hans að stærstum hluta í þeirri von að á næstu mánuðum og e.t.v. árum verði gengi krónunnar skaplegra en verið hefur.
Faxaflóahafnir sf. hafa síðustu 2 árin staðið vel hvað varðar lausafé. Hluti sjóðsins hefur á síðustu mánuðum verið geymdur í svonefndum peningasjóðum LÍ – með þeim skilaboðum að slíkt væri áhættulaust. Nú í september þegar blikur sáust á lofti (og upplýsingar fengust um meðreiðarsveina í þessum sjóðum) varð að ráði að fjarlægja allt laust fé úr þeim sjóði þannig að engin skakkaföll eru af þeim sökum í rekstrinum. Var þar fylgt ítrustu varúðarreglum um fjárvörslu – þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um að allt væri í miklum sóma. Ákváðum við Auður fjármálastjóri að betra væri að kallast heybrækur en lenda í tjóni. Skal þess getið hér að árverkni Auðar fjármálastjóra var til mikillar fyrirmyndar – og öðrum öfundsverð í þeirri stöðu sem á eftir fylgdi hjá ansi mörgum.
Á síðasta fundi hafnarstjórnar var gerð tilraun til að leggja fram sæmilega trúverðuga fjárhagsáætlun fyrir árið 2009. Þar er gert ráð fyrir nokkrum samdrætti í vörugjöldum í kjölfar verulegs samdráttar í innflutningi, en útflutningurinn á að standa fyrir sínu – og veitir ekki af. Ekki er að vænta tekna af sölu byggingarréttar enda svonefnt alkul á þeim markaði og útlit fyrir að svo verði um langa hríð. Það eru því fyrst og fremst almennar rekstrartekjur af hafnarstarfseminni sem við þurfum að reiða okkur á og vonast til þess að helstu viðskiptaaðilar okkar haldi velli. Í þeim efnum eru hins vegar blikur á lofti eins og kunnugt er. Á fundi stjórnarinnar var samþykkt að leggja tillöguna að fjárhagsáætlun fram að svo stöddu og sjá hverju fram vindur – en það væri barnaskapur að halda því fram að útlitið hafi batnað á þeim fáu dögum sem liðnir eru frá fundinum. Því er ljóst að skoða þarf bæði tekjuliði og útgjaldaliði áður en áætlunin verður sett fram til afgreiðslu á næsta fundi í nóvember.
Þó svo að atburðir síðustu daga hafi ekki valdið okkur verulegum búsifjum er ljóst að við munum ekki fara varhluta af þeirri stöðu sem íslenskt samfélag er komið í. Hingað til höfum við lent í óþægindum og veseni, sem þætti ansi gott víða, en vafalaust eigum við eftir að glíma við þyngri fjárhagsstöðu eins og öll önnur fyrirtæki í landinu og jafnvel beinhörð vandræði. Sem betur fer er staða fyrirtækisins með ágætum, en þeirri stöðu verður ekki haldið nema að gætt verðir að boðum og skerjum framundan. Eitt og annað jákvætt er að sjá á sjóndeildarhringnum, m.a. hugsanlega aukin umsvif á Grundartanga, aukinn áhugi á lengdri viðveru skemmtiferðaskipa á næsta ári og aukinn skilningur á því að hlúa þurfi að grundvallar atvinnuvegum þjóðarinnar sem skapa landsmönnum gjaldeyri. Í þeim efnum má segja að mikilvægi hafna sé að verða mönnum aftur ofarlega í huga. Faxaflóahafnir sf. munu því gegna miklu hlutverki í „viðreisninni“ og við erum í stakk búin til að sinna því hlutverki.
Innan fyrirtækisins er okkur nauðsynlegt að huga að innri málum. Á starfsmannafundi þann 3. október s.l. var m.a. rætt um nauðsyn þess að nýta betur krafta okkar og sérþekkingu. Það er nauðsynlegt sem aldrei fyrr. M.a. var rætt um bætta nýtingu starfskrafta hvort heldur menn eru staðsettir í Reykjavík eða á Akranesi. Einhver umræða hefur orðið um það fyrirkomulag að kalla menn ofan að til borgarinnar – en svo skal vera, enda ekki annað skynsamlegt en nýta tiltækt lið eins vel og kostur er. Þá var einnig rætt um nauðsyn þess að við nýttum afl okkar og sérþekkingu betur áður en kallað er eftir þjónustu utan fyrirtækisins. Við erum með flotta kalla í Bækistöðinni og fagmenn í skipaþjónustunni sem geta sinnt flestu sem upp kemur dags daglega. Þó svo að undirritaður sé ekki með nefið ofan í hvers manns koppi þá fer það ekki framhjá undirrituðum þegar vel er gert og þegar betur má gera. Þess vegna má nefna að alltaf yljar það þegar góð orð eru látin falla í mín eyru varðandi Jón og félaga í Bækistöðinni og aðgerðirnar í „Húsinu á Sléttunni“ eru mér að skapi. Eins og Grettir sagði forðum: „„Ekki skal skuturinn eftir liggja ef vel er róið í fyrirrúminu“. Þá var á starfsmannafundinum farið yfir öryggismál og umhverfismál, sem þurfa að vera okkur ofarlega í huga hvort heldur kreppi að eða blási byrlega. Loks skal þess getið að nú standa yfir viðræður við stéttarfélögun um nýja kjarasamninga og í ljós kemur á næstu dögum hvort saman gangi annig að þau mál verði ekki í reiðileysi næstu misserin.
Framundan eru tímar sem reyna á hversu úrræðagóð við erum. Að sjálfsögðu þarf að skoða ýmsa þætti og verkefni, ekki aðeins með hagræði í huga heldur einnig hvar liggja sóknartækifæri. Í þeirri stöðu sem blasir við skiptir því miklu máli að starfsfólkið allt skynji að það skipti máli og gegni lykilhlutverki í því hvernig okkur farnast. Í þessum stutta pistli er reynt að nefna nokkur atriði til upplýsingar – en eflaust er margt sem mætti segja til viðbótar. Eftir því sem ástæða og efni standa til þá verður Skilaboðanskjóðan nýtt til að koma því á framfæri sem þarf – og vonandi að einhver upplýsing finnist í ofangreindu.
Með kveðju, Gísli G.