Í nýju tölublaði Ægis var m.a. viðtal við formann Félags smábátaeigenda í Reykjavík. Nokkur atriði í viðtalinu snéru að Faxaflóahöfnum sf. og þá helst að kvartað var yfir nokkrum atriðum. M.a. var þess getið að nýtt uppsátur væri ekki nógu gott og að það væri stefna hafnarinnar að draga úr aðstöðu smábáta og helst ýta trillukörlum upp á Akranes.. Ekki er hægt að fallast á þetta og því áhugavert að skoða eilítið hvernig málum er háttað.
Í fyrsta lagi er að nefna að lífseig er sú saga að það sé stefna Faxaflóahafna sf. að flytja alla fiskvinnslu og útgerð á Akranes. Það á rætur að rekja til þess að í viljayfirlýsingu sem gerð var á sínum tíma var sagt að efla Akraneshöfn sem fiskihöfn, í Reykjavík ætti að rek inn- og útflutningshöfn og auka hlut skemmtiferðaskipa, en að Grundartangi ætti að taka við þeirri uppbyggingu sem áður var fyrirhuguð í Geldinganesi. Nú er það svo að hlutverk Faxaflóahafna sf. er að skapa aðstöðu fyrir skip og báta með bryggjuplássi, hafnarbökum og baklandi. Faxaflóahafnir sf. færa ekki til fyrirtæki – en vissulega skiptir miklu máli á hverjum stað hvernig skipulagi er háttað og þar véla sveitarstjórnirnar um tillögur stjórnar fyrirtækisins. Eins og dæmin sanna hefur aðstöðusköpun – m.a. í Gömlu höfninni – verið til þess fallin að bæta að aðstöðu útgerðarfyrirtækja, stórra og smárra. Aðstaðan á Akranesi hefur einnig verið bætt – en að sjálfsögðu eru það útgerðaraðilarnir sem ákveða á endanum hvar skuli landa. Í drögum að framtíðarsýn fyrir Faxaflóahafnir sf. er m.a. gert ráð fyrir að léttari hafnarstarfsemi aukist í framtíðinni í Gömlu höfninni, en það útilokar að sjálfsögðu ekki útgerð og fiskvinnslu´. Í þeim efnum hefur fremur verið talað um að með lengingu kanta í Sundahöfn skapist ákjósanleg aðstaða fyrir löndun úr frystitogurum, sem gæti verið hagkvæmara að hafa í Sundahöfn fremur en Gömlu höfninni. En það er framtíðarmúsík sem ekki er liklegt að eigi sér stað á næsti 5 – 7 árum.
Eitt dæmið um bætta aðstöðu smábáta í Gömlu höfninni er m.a. uppsátrið í Örfirisey. Hið besta pláss og framfaraskref, en eitthvað eru menn óhressir með að þar sé ekki bryggjustúfur til að leggja að. Hins vegar hafa félagar í smábátafélaginu enn ekki haft samband við okkur um skoðanir sínar á svæðinu – en úr því verður bætt með því að fá þá til fundar. Til viðbótar uppsátrinu þá skal nefnt að verið er að skoða hagkvæmni þess að setja upp í Gömlu höfninni og á Akranesi ísvélar sem smábátasjómenn hefðu aðgang að með einföldum hætti. Ef kaup á slíku eru hagkvæm og innan skynsamlegra marka er upplagt að koma slíku fyrir í höfnunum. Þá hefur hafnarstjórn styrkt smábátafélagið til tölvukaupa vegna eftirlitskerfis þeirra í Suðurbugt en félagið leigir hluta verbúðanna á Geirsgötu gegn afar vægu endurgjaldi. En vissulega má alltaf betur gera – og aldrei verður það svo að eitthvað megi ekki betur fara.
En nokkrar staðreyndir varðandi smábátana er rétt að skoða. Það vantar ekki bátafjöldann sem liggur í Reykjavík og á Akranesi, en aflabrögð þeirra og umsvif eru misjöfn.
Samtals hafa 29 bátar undir 20 tonn lagt upp í Reykjavík. Ellefu bátar eru skráðir í Reykjavík og átján annars staðar frá. Samtals hefur verið landað úr þessum bátum 658 tonnum. Tekjur af bátum undir 20 tonn (viðlegugjöld, aflagjöld og vigtargjöld) eru samtals það sem af er ári liðlega 6,9 mkr.
Á Akranesi hafa 34 bátar lagt upp rúmlega 1200 tonn og eru tekjur Faxaflóahafna sf. af þeim bátum sem á Akranesi eru samtals um 7,3 mkr. Alls eru því tekjur Faxaflóahafna sf. af bátum undir 20 tonn um 14,2 mkr.
Fyrir þá sem vilja skoða eilitla samantekt um þessi mál þá má sjá hana hér.
Nú er það svo að smábátar leggja upp afla þar sem heppilegast er hverju sinni og ekki er á vísan að róa fyrir hafnir í þessum efnum. Hins vegar er það áhugamál að löndun smábáta aukist bæði í Reykjavík og á Akranesi, en þó er ljóst að þau umsvif þyrftu að aukast verulega til þess að slíkt verði talið arðsamt fyrir höfnina. Að sjálfsögðu munu Faxaflóahafnir sf. halda áfram að skapa smábátum góð skilyrði í Reykjavík og á Akranesi í þeirri von að þeim fjölgi sem landa á stöðunum, en ekki má gleyma því sem gert hefur verið og hvaða umfang verið er að leysa.
Gísli Gíslason, hafnarstjóri