Hún Sigríður Sigurbjörnsdóttir óskaði eftir að eftirfarandi fróðleikur yrði settur á Innri vefinn. Þannig er að í dag er togari í Reykjavíkurhöfn sem heitir Rasmus Effersoe. Togarinn er svo sem eins og allir togarar og liggur við Grandabryggju – en það er einmitt við þann stað sem ber heiti hluta nafns togarans – þ.e. Örfirisey.
Færeyingur að nafni Rasmus Christoffer Effersoe var skáld (m.a. sálmaskáld) á miðri nítjándu öld og tók þátt í þjóðernisvakningu og frelsisþrá Færeyinga með Jóhannesi Paturssyni í Kirkjubæ. Hann átti víst magnaða innkomu á svonefndum Jólafundi sem haldin var í Þórshöfn árið 1888 þar sem færeyingum var blásin í brjóst baráttuhugur fyrir sjálfstæði og færeyskum gildum. Brjóstmynd af Rasmusi stendur við þinghúsið í Þórshöfn og gata er nefnd í höfuðið á honum. Nú er þetta allt gott og blessað nema fyrir það að nefnið Effersoe er færeyskt ættarnafn, sem fyrst var borið af íslendingnum Jóni Guðmundssyni Effersöe sem ílentist í Færeyjum eftir að hafa verið í þjónustu Jörundar Hundadagakonungs. Frá Jóni er sem sagt kominn mikill ættbogi Effersoe-inga.
Það má því segja að nú sé Rasmus Christoffer Effersoe kominn heim og dvelur hér við Grandabryggju í einhverja daga.
Um Örfirisey má bæta eftirfarandi við til fróðleiks af vísindavef HÍ:
Hvort er rétt að segja Örfirisey eða Örfirsey?
Á Vísindavefnum er sagt Örfirisey en í símaskránni er skrifað Örfirsey. Hvort er rétt og hvers vegna? Nafnmynd fyrrverandi eyjar við Reykjavík er Örfirisey. Hennar er getið í heimildum frá 1379 (Páll Líndal, Reykjavík. Sögustaður við Sund.
Á Breiðafirði eru nefndar Örfirseyjar (DI III:656) (1401) en Örfarseyí annál um árið 1663 (Annálar 1400-1800 III:221). Nú er nefnd Örfirisey (eða Öffursey) fyrir vestan Akurey (Árbók Ferðafélags Íslands 1989, bls. 80-81). Örfirsey er norðan Kollafjarðar í Strandasýslu en fyrir Melrakkasléttu í Norður-Þingeyjarsýslu er Örfiriseyja (DI:580) (1394). Í Orkneyjum er til sambærilegt heiti á eyjunni Orphir, sem nefnd er Örfjaraí Orkneyinga sögu .
Orðið örfiri merkir ‘útfiri, breitt fjöruborð’ (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 126-127) og er haft sem fyrri liður nafna á eyjum sem hægt er að ganga út í um fjöru. Ásgeir nefnir nokkrar nafnmyndir sem sýna að fólk hefur ekki skilið fyllilega orðið örfiri (Örfursey, Örfærisey, Öffursey og Effirsey).
Þá verður þessi fróðleikur ekki lengri.
Gísli G