Hin árlega ljósmyndasýning Faxaflóahafna í tilefni Sjómanndagsins hefur nú verið sett upp á Miðbakka Reykjavíkurhafnar.

Að þessu sinni er umfjöllunarefnið afar sérstakir og forvitnilegir fiskar sem veiðst hafa í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar á Íslandsmiðum. Einnig eru helstu nytjafiskar sem veiðast hér við land á sýningunni. Margir þessara forvitnilegu fiska eru sjaldgæfir meðan aðrir veiðast oftar og í meira magni og fæst góð yfirsýn í fjölbreyttann heim hafsins umhverfis landið.

Sýningin var unnin í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og stuðst við heimildir úr bókinni Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. Verkefnisstjórn og hönnun sýningarinnar annaðist Guðmundur Viðarsson og ljósmyndir af fiskum tók Svanhildur Egilsdóttir líffræði ljósmyndari hjá Hafrannsóknarstofnun. Jón Sólmundsson gerði útbreiðslukort og Klara Jakobsdóttir, Jónbjörn Pálsson og Jón Sólmundsson önnuðust textagerð.

Á minni spjöldum sýningarinnar gefur að líta sýningu helstu nytjafiska við Ísland með handteiknuðum myndum Guðjóns Inga Haukssonar og næringatöflum fiska frá Matís.

Í senn fræðandi og skemmtileg sýning sem er nú til sýnis á Miðbakka Reykjavíkurhafnar og stendur til október byrjunar.

Faxaflóahafnir hvetja almenning til að kíkja við á Miðbakkann í sumar og skoða þessa áhugaverðu ljósmyndasýningu.


FaxaportsFaxaports linkedin