Ár 2008, 13. júní kom öryggisnefnd Faxaflóahafna sf. saman til fundar í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og hófst fundurinn kl. 10:00.
Mættir:
Hallur Árnason
Jón Guðmundsson
Ragnar Arnbjörnsson
Gísli Jóhann Hallsson
Hallur setti fyrsta fund nefndarinnar og bauð viðstadda velkomna, en einn kjörinn fulltrúa, Júlíus Víðir Guðnason, vantaði á fundinn. Byrjað var á því að kjósa formann og ritara, og var Hallur kosinn formaður og Gísli ritari. Því næst úthlutaði Hallur hverjum fulltrúa eintaki af Vinnuumhverfishandbók Faxaflóahafna sf .
Atriði sem farið var yfir á fundinum:
- Stiklað á stóru um starfshætti nefndarinnar samkvæmt reglugerð nr. 920 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.
- Ákveðið var að tilkynna nefndina til Vinnueftirlits Ríkisins eins fljótt og auðið er og tók Hallur það verkefni að sér.
- Jón taldi nauðsynlegt að fá einn aðila frá skrifstofu í nefndina, þannig að hver deild innan fyrirtækisins hefði sinn fulltrúa. Voru menn sammála því og tók Hallur að sér að tala við Sigríði, formann starfsmannafélags Faxaflóahafna, um hvernig velja eigi fulltrúa skrifstofu.
- Jón stakk upp á að fundargerðir nefndarinnar yrðu aðgengilegar starfsmönnum á innri vef Faxaflóahafna og var það samþykkt samhljóða. Gísli tekur að sér að tala við Gunnbjörn um málið.
- Samþykkt að allir nefndarmenn sæki öryggistrúnaðarmanna námskeið hjá Vinnueftirliti Ríkisins.
- Umræður um tilkynningar á slysum og óhöppum. Nefndin er sammála um að tilkynningar um slys og óhöpp berist allt of seint og illa til viðkomandi aðila innan fyrirtækisins. Einnig telur hún að betur megi gera í skýrslugerð vegna slíkra atvika og leggur áherslu á að skýrsla sé gerð í öllum tilvikum, sama hversu lítil þau eru. Þá telur nefndin að sameina þurfi allar slíkar skýrslur á einn stað þar sem hæg væri að hafa betri yfirsjón á fjölda og flokkun slysa og óhappa. Gísli leggur til að talað verði við Gunnbjörn um hvort ekki megi laga núverandi kerfi hafnarþjónustu að slíku fyrirkomulagi, þannig að allar deildir fyrirtækisins geti skráð þar inn atriði og var það samþykkt. Gísli tekur að sér málið.
- Umræður um að halda skyndihjálparnámskeið fyrir starfsmenn, sem sniðið yrði að þeirra þörfum þ.e. fjallaði um atvik sem upp gætu komið á hafnarsvæðinu. Töldu menn að þau námskeið sem haldin hafa verið væru meira almennt eðlis og nýttust því ekki sem skyldi þegar á reyndi. Ákveðið að bíða til haustsins og fara þá af stað og finna réttan aðila til námskeiðahalds.
- Ákveðið að ákvörðun um næsta fund nefndarinnar yrði ávalt tekin í lok hvers fundar. Var ákveðið að næsti fundur yrði haldin 21. ágúst 2008.
Fleira ekki gert,
Fundi slitið 10:45