Fyrir þá sem hafa gaman af grúski um hafnarmál þá eru hér nokkrar upplýsingar um fjárhag hafna árið 2007. Framundan er Hafnasambandsþing þar sem m.a. er rætt um stöðu hafna og fjárhag þeirra, en sá hagur hefur verið erfiður undanfarin ár og verður eflaust á næstu árum.
Það sem vekur m.a. athygli er að fiskihafnirnar standa almennt illa að vígi. Þó svo að aflagjaldið hafi eitthvað lagast á milli áranna 2006 og 2007, þá er ansi langt í land með að þær geti annast uppbyggingu á eigin vegum. Þetta má sjá í yfirliti um fjárhag hafna sem hagdeild Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman og má sjá HÉR. M.a. má sjá að heildartekjur íslenskra hafna eru liðlega 4,9 milljarðar. Þar ef eru Faxaflóahafnir sf. með 2,5 milljarða. Ef teknar eru hafnir sem eru með stóriðju (Faxaflóahafnir, Hafnarfjörður og Fjarðarbyggð) þá eru nema tekjur þeirra alls 3,1 milljarði sem er um 65% af heildar tekjum hafna. Ef horft er á vörugjöldin kemur í ljós að heildar tekjur hafna af vörugjöldum eru 1,3 milljarður og hlutur hafnanna þriggja í þeim tekjum er liðlega 1,2 milljarður – eða 85%. Vörugjöld Faxaflóahafna sf. árið 2007 voru 897 mkr. Aflagjöld hafna eru samtals 772 mkr. og þar af eru Faxaflóahafnir sf. með liðlega 100 mkr.
Þegar litið er á rekstrarniðurstöðu allra hafnarsjóða landsins að teknu tilliti til fjármagnskostnaðar en án afskrifta þá er jákvæður afgangur samtals 1,8 milljarður, en ef hlutur Faxaflóahafna sf. í þeim afgangi er tekinn út þá standa eftir 437 mkr., sem duga fyrir tæplega 200 metrum í stálþili og bakka. HÉR má sjá eilitla samantekt um helstu tölur.
Af framangreindu er ljóst að fjárhagur hafna víða um land er ekki beinlínis burðugur, en þó helst þær hafnir sem njóta tekna af stóriðju sem skila jákvæðri afkomu. eflaust mun efnahagsástandið gera öllum höfnum á landinu skráveifu – eins og öðrum, fyrirtækjum og einstaklingum – en eflaust mun sú þróun reynast minni höfnum og skuldugum þung í skauti.
Gísli G.