Nýtt skipurit Faxaflóahafna tók gildi frá 1. mars 2021. Tilgangur vinnu um nýtt skipulag hefur m.a. verið að kortleggja og skýra starfsemina, að skýra ábyrgð í verkferlum, að skerpa sýn á tekjustrauma og að auka viðskiptahugsun. Fyrirtækið verði þannig vel upp sett til að veita góða þjónustu með skilvirkum og ábyrgum hætti.

Nýtt skipulag er sett fram í formi ferlalíkans með kjarnaferli og stoðsvið. Kjarnaferli fyrirtækisins eru jafnframt tekjustraumar þess og hafa verið skilgreind þannig:

  • Hafnarþjónusta. Undir Hafnarþjónustu fellur hafnsaga, dráttarbátaþjónusta, hafnavernd og vigtarmál
  • Hafnarinnviðir. Fyrirtækið fjárfestir í hafnarmannvirkjum til að þjónusta vöru- og farþegaflutninga á sjó. Undir þetta ferli fellur rekstur hafnarinnviða.
  • Lóðir og mannvirki. Faxaflóahafnir skipuleggja og þróa land á sínu yfirráðasvæði og eiga jafnframt og reka húsnæði á hafnarsvæðum. Undir ferlið fellur viðhald og leiga, sala á lóðum og mannvirkjum.

Stoðsvið vinna þvert á ferli og verða þau þrjú:

  • Framkvæmdasvið. Framkvæmdasvið fer með stærri fjárfestingar fyrirtækisins, undirbýr framkvæmdir og hefur eftirlit með þeim en er jafnframt ráðgefandi um landupplýsingar inn á við sem út úr fyrirtækinu.
  • Viðskiptasvið. Á Viðskiptasviði eru sameinaðir nokkrir málaflokkar sem snúa að fjármálum, upplýsingatækni, markaðsmálum og viðskiptaþróun. Mikilvæg verkefni eru framundan í þróun fyrirtækisins m.t.t. upplýsingatækni og snjalllausna. Viðskiptaþróun snýst um að fyrirtækið þrói tækifæri og viðskiptahugmyndir til lengri tíma, m.a. á sviði landnotkunar.
  • Umhverfi og samfélag. Gæðastjórnun, öryggis-, heilsu- og umhverfismál, mannauðsmál og samfélagsmál eru á þessu sviði. Þannig eru innviðir eða innra starf fyrirtækisins undir hér, gæðakerfi, þróun mannauðs og áhersla á öryggismenningu en jafnframt samfélagsábyrgð og rík áhersla á umhverfisþáttinn í starfseminni.

Skilvirkni og ábyrgð eru leiðarljósið í breytingum á skipulagi en jafnframt áhersla á innra starf og þróun Faxaflóahafna. Snjallar og grænar hafnir kalla á þróun í upplýsingatækni og áherslu á umhverfis- og loftslagsmál, t.a.m. með þeim hætti að fyrirtækið taki þátt í þróun um orkuskipti á landi og á sjó. Nýtt svið, Umhverfi og samfélag, sem heyrir beint undir hafnarstjóra, endurspeglar jafnframt áherslu á þróun mannauðs, fjölbreytni og góða vinnustaðarmenningu, þróun öryggismenningar með þátttöku alls starfsfólks og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækisins.

 

FaxaportsFaxaports linkedin