Á Grundartanga eru farnar af stað talsverðar framkvæmdir við land- og lóðargerð á grundvelli nýlegs deiliskipulags á svæðinu vestan járnblendiverksmiðjunnar. Þar eru nú þegar skipulagðar nokkrar lóðir og fjórir aðilar sem hafa gengið frá lóðagjaldasamningum.
Fyrirtækin Stálsmiðjan og Mjólkurfélag Reykjavíkur hyggjast hefja framkvæmdir við húsbyggingar á næstu vikum, en Mjólkurfélag Reykjavíkur hyggst flytja starfsemi sína úr Sundahöfn á Grundartanga á næstunni og Stálsmiðjan mun reisa smiðjuhús, sem mun vera á leiðinni til landsins. Blikk og Stál, sem m.a. eru með ákveðna endurvinnslu á álhleifum, og Stálsmiðjan Héðinn hyggjast á hausti komanda reisa nauðsynleg mannvirki vegna starfsemi sinnar. Fleiri aðilar hafa lýst yfir áhuga á lóðum á Grundartanga, en ekkert fleira er þó endanlega ákveðið að svo stöddu. Nú er verið að vinna að heildar deiliskipulagi á svæðinu en skipulagið verður væntanlega tilbúið í lok árs. Á því skipulagi mun auk lóða gert ráð fyrir lengingu hafnarbakka og baklandi fyrir flutningastarfsemi. Nýlega voru opnuð tilboð í gatnagerð og lagnir á svæðinu og var fyrirtækið Þróttur lægstbjóðandi með um 227 mkr. tilboð, en auk þeirra hefur Björgun ehf. verið að dæla sandi í landfyllingu á svæðinu. Samhliða gatnagerðinni á Grundartanga verður hafist handa við gerð grjótgarðs þar sem komið verður fyrir aðstöðu fyrir lóðs- og dráttarbáta Faxaflóahafna sf., en sú aðstaða verður vonandi langt komin að hausti þegar nýr Jötunn kemur til landsins.