Jæja gott fólk. Þá liggur fyrir fjárhagsáætlun Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2011 og gjaldskrá næsta árs. Þar kennir ýmissa grasa og mun ég setja inn á Innri vefinn – og reyndar þann ytri einnig – nánari kynningu á því ágæta máli.
Til þess að útskýra aðeins meginlínurnar í fjárhagsáætlun þá verða tekjur um 2,3 Ma. kr. og rekstrargjöld liðlega 2,1 Ma. kr. Á tekjuhliðinni er samdráttur í lóðarleigur og óveruleg breyting í vörugjöldum – ef nokkur. Það þýðir að við munum hafa úr svipuðu að spila og á yfirstandandi ári. Í rekstrargjöldum er reynt að draga úr því sem ekki snertir grundvallarstarfsemi svo sem risnu, fargjöld og dvalarkostnað, kostnað vegna tölvukerfa, sérfræðikostnað o.fl. en á móti staðið vörð um aðra starfsemi og starfsfólk. Inn í áætluninni er reynt að bregðast við brýnustu viðhaldsverkefnum og yfir 100 mkr. varið til viðhalds á mannvirkjum. Eignabreytingar verða um 720.0 mkr.
Eitt af því sem tekur breytingum á næsta ári er að ekkert verður Hafnarballið. Frá árinu 1981 hefur hafnarsjtórn boðið til veislu og hafa þá auk starfsmanna og stjórnarfólks, þeir sem hættir eru störfum mætt til leiks. Eflaust finnst hér einhverjum djúpt saxað – en þannig er þetta. Það þýðir hins vegar ekki að haldið verði uppi eðlilegu og góðu félagslífi starfsmanna. Þess vegna mun ég ræða við stjórn starfsmannafélagsins hvernig við mætum þessari breytingu – en gleðskap höldum við starfsfólk með okkar hætti í breyttu umhverfi.
Ánægjulegt er að segja frá því að á stjórnarfundi í morgun var einmitt nefnt af formanni og stjórnarmanni að ánægjulegt væri að sjá hversu þéttur starfsmannahópur Faxaflóahafna sf. væri og þar gengju menn til ýmissa verka þó svo að það væri ekki akkúrat í „starfslýsingunni“. Það er gott að eftir þessu er tekið – enda höfum við unnið að því að nýta sem best það hæfileikafólk sem er á mismunandi starfsstöðvum fyrirtækisins. Nú eru 62 fastráðnir starfsmenn hjá Faxaflóahöfnum sf. Þeim hefur fækkað um 12% á síðustu fimm árum eftir því sem störf hafa losnað og því hefur átt sér stað ákveðin hagræðing auk þess sem ýmsar fleiri breytingar hafa verið gerðar hægt og bítandi. Ekkert ráðabrugg er um frekari breytingar í þeim efnum. Máli skiptir að starfsfólk Faxaflóahafna sf. hefur mætt breyttum aðstæðum á skynsamlegan hátt þó svo að á móti blási. Við ráðum víst engu um ástand þjóðmála eða annarra, en ráðum talsverðu um okkar eigin störf og því sem okkur er trúað fyrir. Árangurinn er öflugt fyrirtæki með mjög hæfu starfsfólki sem eigendurnir eiga og geta fölskvalaust verið stoltir af. Starfsandinn í meðbyr eða mótbyr – með eða án hafnaballs – er undir okkur sjálfum kominn og engin ástæða til þess annað en að við finnum áfram góðar leiðir í þeim efnum.
Þetta eru sem sagt skilaboðin um hafnaball og fjárhagsáætlun. Eins og áður er nefnt mun ég setja á netið nánari upplýsingar um fjárhagsáætlunina en þar er talsvert af verkefnum sem munu halda okkur uppteknum næsta árið.
Gísli Gíslason, hafnarstjóri