Það er áhugavert að sjá hversu lúnknir íslendingar eru að selja útlendingum tæki, tól og fisk.  Beint á móti bás Faxaflóahafna sf. hér í Bremen er fyrirtæki frá Þýskalandi sem sérhæfir sig í síld.  Áður en dagurinn var úti í gær þá hafði einn ágætur íslendingur svo gott sem tryggt sér stór viðskipti við þennan aðila og var bísna kátur.  Þessi síldarverkandi var rendar ekki með mikil umsvif – en áhugasamur um maskínur íslendingsins.  Ekki skal ég segja um hráefnið sem kappinn notar – en hann bauð upp á sýnishorn af framleiðslunni – sem satt að segja var erfitt að kyngja.  Að sjálfsögðu dugði ekkert annað en að brosa, kyngja og þakka fyrir – en á ýmsum sviðum brúka menn þessa list og kalla diplómatíu.

Hér eru að auki nokkrir íslendingar sem eru miðlarar  –  þ.e. kaupa fisk af ýmsum aðilum og selja áfram til ýmissa landa í Evrópu eða Asíu (Kína, Kóreu og Japan).  Af öllu er ljóst að íslenskur fiskur er Benz á meðal Trabanta – með fullri virðingu fyrir Trabbanum. 

       

Samhliða sýningunni eru merkis fyrilestrar í salnum um ýmislegt sem varðar fisk og fiskveiðar – en ekki er þó allt við hæfi okkar íslendinga í því efni heldur fjallað um þýskar áherslur í fiskáti og flutningum.  Á morgun verða íslendingar hins vegar í aðalhlutverki með fjögurra tíma umfjöllun um markaðsmál íslendinga, fiskveiðar o.fl. en þá verður Einar Kristinn Guðfinnson, sjávarútvegsráðherra með innlegg svo og Eggert Guðmundsson, forstjóri HB Granda hf.  Nánar af því síðar – en þeir Einar, Eggert og fleiri íslendingar voru í dag á 12 tíma skoðunarferð um Bremerhaven og Cuxhaven.

Í ljósi þess að um 150 þúsund tonn af fiski auk ýmissa annarra fiskafurða fóru um hafnir Faxaflóahafna sf. árið 2007 þá verður ekki annað sagt en að lífið sé áfram saltfiskur.og mikilvægt fyrir höfnina að halda sínum hut í þessum geira.  Ágúst markaðsstjóri, sem jafnframt er smáútgerðarmaður á Hofsósi, hefur tekið hugmynd mína til skoðunar um að tengja hakkavél við utanorðsmótorinn á bátnum hans til að vinna þann afla sem hann veiðir í fiskfars.  Hann er hins vegar haldinn þeim misskilningi að hakkavélin eigi að skila aflanum aftur í sjóinn og telur að þar sé um vistvænar fiskveiðar að ræða.  Ég þarf aðeins að rétta kúrsinn hjá honum í þessu efni – en hef að sjálfsögðu sótt um einkaleyfi áhugmyndinni um hakkavélina.

Gísli Gíslason.

 

FaxaportsFaxaports linkedin