Sundabraut og ónafngreindir heimildarmenn.

 

 

Frétt RÚV fimmtudaginn 31.1. s.l. og umfjöllun Spegilsins í framhaldi um álit ónafngreindra heimildarmanna um málefni Sundabrauta vöktu sérstaka athygli mína.  Þar taldi fréttamaður sig hafa áreiðanlegar heimildir frá embættismönnum í „kerfinu“ um að óþarfi væri að fara í lagningu Sundabrautar ef mislæg gatnamót kæmi við Miklubraut og Kringlumýrarbraut og gámahöfn í Hafnarfirði.  Umferðarvanda borgarbúa og nærsveitarmanna mætti þá leysa með einföldum hætti – sem reyndar var ekki farið nánar út í.  Að sjálfsögðu á almenn umfjöllun um þessi mál fullan rétt á sér, en þessi vísindi eru hins vegar merkileg – og leitt að enginn þorði að setja nafn sitt við efnið – sem er kannski von þar sem meginforsendur fyrir málinu voru ýmist tómt rugl eða í besta falli rangar.

 

Þegar fjallað er um Sundabraut verður að gera þá kröfu að til haga sé haldið grundvallar staðreyndum.  M.a. þeirri að umferð um Árstúnsbrekku er nú um 95.000 bílar á dag að meðaltali og fer ört vaxandi.  Ný byggingarhverfi rísa hratt við Úlfarsfell, í Teigahverfi í Mosfellsbæ við Helgafell og Leirvogstungu.  Að auki er iðnaðarbyggð að rísa á Esjumelum og í nágrenni og verið er að skoða tilflutning iðnaðarfyrirtækja í Álfsnes.  Umferðin um Vesturlandsveg mun því halda áfram að aukast verulega og ný hringtorg á þjóðveg nr. 1 munu ekki leysa aukinn umferðarþunga smærri og stærri bíla.  Því var haldið fram að Sundabraut myndi „aðeins“ stytta vegalengdir milli höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands um 7 kílómetra – en þess ekki getið að fjöldi kílómetra í þessu efni er afstætt hugtak þegar aukin umferð dregur meðalhraða niður fyrir eðlileg mörk og eykur ferðatíma fólks í upphafi og lok dags langt umfram það sem ásættanlegt er.  Þetta þekkja þeir sem kynnast af eigin raun umferðarmassanum sem er allt frá Grafarholti niður að Kringlumýrarbraut og út Hringbraut á tímabilinu frá kl. 07:45 til 09:00 og frá kl. 16:00 til 18:00 – dag hvern.  Sjón er í þessu efni sögu ríkari.

 

Höfuðborginni og aðliggjandi byggð er brýn nauðsyn að búa við greiðar samgöngur.  Ein þéttsetin vegtenging til og frá höfuðborginni til vesturs og norður er fyrir löngu tímaskekkja með tilliti til öryggis og umferðarmagns.  Þetta þekkja íbúar í Mosfellsbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Árbæ og þeir sem koma um Suðurlandsveg og Vesturlandsveg inn í höfuðborgina.  Það er því aðeins ein leið til að bæta úr, en það er með lagningu Sundabrautar, enda eru allir þeir sem kynnt hafa sér málið á einum máli um að verkefnið er brýnt og ætti að vera í forgangi vegaframkvæmda.

 

Varðandi flutning gámahafnar á Grundartanga þá stendur ekki annað til en að Sundahöfn sinni mikilvægu hlutverki sínu um næstu áratugi.  Eflaust munu gámaflutningar um Grundartanga aukast og flutningar breytast – en það mun ekki draga úr nauðsyn þess að greiðar samgöngur verði á milli Sundahafnar og Grundartanga þannig að flutningar um þær hafnir gangi greiðlega fyrir sig, öryggi í flutningum á landi verði aukið og leitað eftir aukinni hagkvæmni með nýtingu beggja hafnanna.  Stækkuð  höfn við Straum í Hafnarfirði mun ekki hafa úrslita áhrif á þessa þróun án þess að farið verði nánar út í þá sálma enda á eflaust eftir að skoða ýmsa fleti í þeim áformum.

 

Umferðarmál og vegtengingar í nágrenni borgarinnar verða ekki leyst með véfréttum og einföldum patentlausnum ónafngreindra manna í „kerfinu“.  Því fyrr sem hafist verður handa við byggingu Sundabrautar því betra.  Augljóslega verður að hafa það í huga að ekki er verið að leysa einhvern augnabliksvanda heldur skipa málum til lengri framtíðar svo dugi.  Nýlega lýstu þingmenn og samgönguráðherra því yfir að Sundabraut væri meginverkefni landsmanna í vegamálum.  Því ber að fagna og hvetja til þess að verkefninu verði nú komið sem fyrst til framkvæmda.

 

Gísli Gíslason,

hafnarstjóri Faxaflóahafna sf.

FaxaportsFaxaports linkedin